Allsherjarþingið samþykkir alþjóðlegan salernisdag

0
451

Toiletday

25. júlí 2013. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að lýsa 19. nóvember ár hvert Alþjóðlegan salernisdag. Þetta er gert í þeim tilgangi að vekja almenning til vitundar um þann skaðvald sem skortur á salernisaðstöðu sem veldur hugsanlega ótímabærum dauða  tvö þúsund barna á dag í heiminum.

Af sjö milljörðum jarðarbúa eiga sex milljarðar farsíma en aðeins 4.5 milljarðar hafa aðgang að salerni. Tveir og hálfur milljarður hafa ófullnægjandi aðgang að salerni og milljarður og hundrað milljónum betur verður að gera sér að góðu salerni undir berum himni.

Allsherjarþingið skoraði á aðildarríki og aðra hlutaðeigandi að beita sér fyrir viðhorfsbreytingum og hrinda í framkvæmd aðgerðum til að auka aðgang fátækra að salerni með það fyrir augum að binda enda á að fólk gangi örna sinna undir beru lofti en slíkt er talið “eintaklega skaðlegt” heilbrigði almennings.

“Þessi ályktun skiptir miklu máli í viðleitni til að vekja fólk til vitundar um mikilvægi þess að allar manneskjur hafi aðgang að salernisaðstöðu”, sagði Jan Eliasson, varframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Þar sem fólk gengur örna sinna á víðavangi, er einmitt hæstur barnadauði innan fimm ára aldurs, mest vannæring og fátækt og bilið breytt á milli fátækra og ríkra.

“Þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefur í þá átt að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin um þróun, hefur þriðjungur jarðarbúa ekki aðgang að einföldu salerni,” segir  Jan Eliasson. “Nærri tvö þúsund börn deyja dag hvern af völdum niðurgangspesta sem hæglega má fyrirbyggja.  Þróunarríki verða fyrir efnahagslegum skaða sem metinn er á 260 milljarða á ári í þróunarríkjum sem má rekja til vondrar  salernisaðstöðu og ófullnægjandi aðgangs að hreinu vatni.”