SÞ 75 ára: Nýjan mælikvarða á hagvöxt og minna púður í báknið

0
708
75 ára afmæli SÞ

Sjálfbærni og umhverfisvernd, ójöfnuður og skilvirkari alþjóðleg samvinna er á meðal þess sem eru efst á baugi í svörum Íslendinga við spurningum Sameinuðu þjóðanna um á hvað beri að leggja mesta áherslu í starfi samtakanna.

Sameinuðu þjóðirnar eru 75 ára í ár en í stað þess að halda upp á afmælið var ákveðið að leita til almennings í heiminum og spyrja hvaða áherslur fólk vilji sjá í framtíðinni.

SÞ75 logo

Við báðum nokkra Íslendinga sem svöruðu könnuninni að deila með okkur svari við spurningunni um hvað ráð þeir vildu gefa aðalframkvæmdastjóranum. Svarið er á knöppu formi eða á að giska 140 tákn sem er svipað og eitt tíst (tweet á twitter).

Samvinna ríkja

Alþjóðleg samvinna er að margra mati lykillinn að árangri í glímunni við tröllaukinn verkefni samtímans. Ráð Guðrúnar Hálfdanardóttur blaðamanns eru „að leggja mikla áherslu á samvinnu milli ríkja og draga úr ójöfnuði með bættu aðgengi allra að heilsugæslu og menntun.”

Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður leggur áherslu á samtalið á milli þjóða:

„Eyða minna púðri í báknið en því meira í drepnauðsynlegt samtal milli þjóða með ólíkan bakgrunn og afkomumöguleika“

Samtalið er Ari Matthíassyni leikara og fyrrverandi þjóðleikhússtjóri líka kært því hann ráðlagði Guterres aðalframkvæmdastjóra að „hlusta á fólk og tala við fólk.”

„Fólk vill vel og er gáfað og gott enda eru vonir okkar og þrár eru sameiginlegar. “

„Sjálfbærni er mikilvægasta málefni heimsins. Til að ná henni þarf samvinnu þjóða og þjóðhöfðingja sem viljugir eru til samstarfs,” segir Marínó Gunnar Njálsson ráðgjafi.

Halldóra Kristín Thoroddsen rithöfundur bendir á raunhæft málefni sem tengist sjálfbærni. ,,Legg til að S.Þ. beiti sér fyrir söfnun alþjóðasamfélagsins til þess að vinna vatn úr sjó við Afríku auk áveitukerfis. Án corporate-finance.“

Þjóðarframleiðsla úrelt

Elín Hirst sagnfræðingur, fjölmiðlakona og fyrrverandi alþingismaður bendir aðalframkvæmdastjóranum á að þjóðarframleiðsla (GDP) sem mælikvarði á hagvöxt og hagsæld sé ónákvæm og úrelt. „Þarna eru umhverfisspjöll sem rekja má til framleiðslu eða neyslu ekki tekin með í reikninginn. Þannig að neysla og framleiðsla á varningi sem eyðileggur umhverfið eykur þjóðarframleiðsluna.“

Gunnar Gunnarsson stjórnmálafræðingur og sendiherra telur svo að Sameinuðu þjóðirnar þurfi að huga að forgangsröð þvi dagskráin sé of víðfeðm til að að ná árangri.

“Ég hel að það hljóti að vera vandi fyrir Sþ að þurfa að beina athyglinni að öllu og engu.  NATO er alþjóðastofnun sem virkar. Hún gerir það einungis með því að ýta hinum ýmsu dagskrárliðum annað eins og til ÖSE plús að forysturíkið Bandaríkin tekur að sé leiðandi hlutverk í þeim málum sem skipta mestu.”