SÞ og ESB taka höndum saman gegn kynbundnu ofbeldi

0
692
SÞ og ESB berjast gegn ofbeldi gegn konum.

Þrátt fyrir samgöngutakmarkanir og lokanir vegna COVID-19 hafa 650 þúsund konur og stúlkur notið þjónustu sameiginlegs átaks Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins til höfuðs ofbeldi gegn konum.

Þetta kom fram í skýrslu Spotlight átaksins  (Spotlight Initiative) fyrir 2020-2021 sem kynnt var fyrir helgi.

„COVID-19 hefur verið sem olía á eld ofbeldis gegn konum og stúlkum. Á það verður að líta í samhengi við þann afturkipp sem orðið hefur í réttindum kvenna um allan heim,” segir Sima Bahous forstjóri  UN Women, Jafnréttisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

„Samstillt átak hefur aldrei verið brýnna en nú til að vernda þann árangur sem hefur náðst og fylkja liði gegn bakslagi.“

Stuðningur grasrótar

Spotlight átakið er öflugasta hreyfing sinnar tegundar til að binda enda á ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Auk þess að efla þjónustu á meðan heimsfaraldurinn geisar, hefur átakið hjálpað almannasamtökum að aðlagast breyttu umhverfi. Þar á meðal má nefna að styrkja fjarþjónustu hvort heldur sem er netþjónustuu, símaráðgjöf og símatíma.

Fjárveitingum hefur einnig verið beint í auknum mæli til staðbundinna- og grasrótarsamtaka. Hefur 146 milljónum Bandaríkjadala verið varið til þessa.

Að ná til karlmanna

Þá hafa 880 þúsund karlar og drengir fengið kennslu í jákvæðri karlmennsku, að sýna fjölskyldutengslum virðingu og leysa deilumála á friðsaman hátt.

Henrietta Fore forstjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) nefndi nokkur einstök málefni um allan heim.

„Í Malavíu störfum við með samtökum og fjölmiðlum að því að auka vitund skólafólks og ungmenna, sérstaklega stráka. Þetta átak hefur greitt fyrir því að ofbeldisverk séu kærð og konur og stúlkur fá skjótari og öflugri stuðning.“

Öflugri löggjöf

Ofbeldi gegn stúlkum og konum þrífst í öllum samfélögum en eykst þegar harðnar á dalnum vegna ýmissra hamfara og hefur aukist í heimsfaraldrinum.

Achim Steiner forstjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) segir að þótt öflug stefnumörkun og löggjöf komi ekki í veg fyrir kynbundið ofbeldi, eru þau þýðingarmikið til að „stemma stigu við þessari alheimsvá.”

Spotlight átakið hefur hjálpað 17 Suður-Ameríkuríkjum við að koma lögum yfir kvennadráp og bæta greinum við lög til að refsa gerendum harðlega.

„Við höfum einnig unnið með þúsundum þingmanna, til dæmis í samvinnu við UN Women, við að koma á fót COVID-19 kynjagreiningu. Þessu er ætlað að greiða fyrir því við setningu laga og mótun stefnu að hægt sé að finna góð fordæmi og leggja til atlögu við ofbeldi gegn konum,” segir Steiner.

Framhaldið

Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að þróa Alheimsvettvang Spotlight (Spotlight Global Platform). Þar er ætlunin að sameina þekkingargrunn, tengslanet og hvaðeina sem nota má til að vinna málstaðnum fylgi og byggja á fenginni reynslu af starfi átaksins.

Olaf Skoog sendiherra Evrópusambandsins hjá Sameinuðu þjóðunum segir að þótt tíðni kyunbundins ofbeldis í heiminum sé skelfileg, hafi samvinnan skilað árangri.

„ Við segjum alltaf að ef maður ætlar að breya heiminum, þurfi maður að taka til í sinum ranni,” segir Skoog. “Og hér hjá Sameinuðu þjóðunum er reynt að leysa erfiðustu deilur heims á hverjum degi. En til þess að geta það, ber okkur að berjast ötullega gegn ofbeldi í okkar eigin samfélögum. Ekkert samfélag er laust við þetta hlutskipti.”