Suður-Súdan á barmi hungursneyðar

0
466

S.súdan

7.ágúst 2014. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir þungum áhyggjum yfir matvælaskorti í Suður-Súdan og telur hungursneyð á næsta leyti.

Í Í yfirlýsingu ráðsins segir að ástandið sé hvergi verra í heiminum í augnablikinu. Meir en þriðjungur íbúa Suður-Súdans á á hættu að svelta heilu hungri vegna yfirstandandi átaka í landinu og gefin hefur verið út viðvörun um yfirvofandi hungsursneyð.

Þúsundir hafa látist og ein og hálf milljón hefur flúið heimili sín frá því síðasta lota átaka hófst á milli stjórnarhersins, liðhlaupa og vígasveita í desember á síðasta ári. Fjölskyldur hafa orðið að flýja akra og búpening á miðjum bjargræðistímanum þegar akrar eru sánir. Margir reiða sig því á mannúðaraðstoð. Illa gengur að koma mat og mikilvægum birgðum til nauðstaddra vegna átaka, en oft og tíðum eru greipar látnar sópa um matvælasendingar. Óttast er að núverandi átök hafi langtíma áhrif á þróunarstarf og erlenda fjárfestingu. Mörg landbúnaðarverkefni hafa verið sett á ís vegna óöryggis og erlendir fjárfestar snúið heim. 

Af rúmlega 11 milljónum íbúa eru 3.9 milljónir taldar standa frammi fyrir hættulegu fæðuóöryggi og vita ekki hvenær og hvernig þeir fá næstu máltíð. Nærri ein milljón barna undir fimm ára aldri þurfa sérstaka meðferð við vannæringu á árinu, að mati UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og WFP, Matvælaáætlunar samtakanna. Óttast era ð 50 þúsund börn látist úr vannæringu.

Sjá baksvið frá UNRIC 

Ljósmynd: Flickr_Oxfam_International_2.0_Generic_CC_BY-NC-ND_2.0