Svíar kynna áherslur í Öryggisráðinu

0
595
Guterres Wallstrom

Guterres Wallstrom

10.janúar 2017. Margaret Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar stýrði í dag fyrsta fundi sem nýskipaður aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, ávarpar formlega.

Svíar settust í Öryggisráðið í fyrsta skipti frá því þeir náðu kjöri til tveggja ára, um áramótin eða á sama tíma og Guterres tók við embætti. Um leið settust Svíar í forsæti Öryggisráðsins en aðildarríki þess skiptast á að sitja í forsetastól mánuð í senn.

Guterres ávarpaði sérstakan opinn fund Öryggisráðsins um hvernig koma má í veg fyrir átök og hlúa að friði.
Guterres lagði áherslu á að það yrði að vera fyrsta forgangsatriði í starfi samtakanna að hindra átök.

Margot Wallström skoraði á aðildarríki Öryggisráðsins að hlíta kalli aðalframkvæmdastjorans um að auka hlut friðarumleitanna og tryggja þáttöku kvenna í friðarstarfi og bæta sameiginlega áætlanagerð í þágu friðar.

Áður hafið Wallström heitið því í kjallaragrein í Dagens Nyheter að Svíar myndu greiða fyrir því að nýr aðalframkvæmdastjóri ætti góða byrjun í starfi.

Hún sagði að Svíar vildu efla viðleitni Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir átök og efla tengslin á mill kvenna, friðar og öryggis.
„Við viljum leggja fram okkar skerf til þess að gera Öryggisráðið skilvirkara, opnara og lögmætara. Takmarka ber notkun neitunarvalds, ekki síst þegar ástandið er eins og í Sýrlandi.“

„Við munum halda áfram að beita okkur gegn brotum á banni Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna við valdbeitingu, mannréttindabrotum og brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum,“ hélt Wallström áfram í grein sinni og bætti við: „Svíþjóð var kosin í Öryggisráðið með miklum yfirburðum eða 134 atkvæðum. Heimurinn hefur talað, nú er komið að okkur að axla ábyrgðina.“

Mynd: Wallström og Guterres fyrir fund Öryggisráðsins. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe.