Sýrland: aðstoð verði hleypt í gegn

0
589

sýrland
16.janúar 2017. Oddvitar hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna sendu í dag frá sér ákall þar sem þeir biðja stríðandi fylkingar í Sýrlandi um að leyfa þegar í stað skilyrðislausan og öruggan aðgang barna og fjölskyldna að neyðaraðstoð.

„Harmleikur síðasta árs má ekki endurtaka sig í ár,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu Ertharin Cousin, forstjóra Matvælaáætlunarinnar (WFP), Anthony Lake, forstjóra Barnahjálparinnar (UNICEF), Stephen O´Brien, samræmingarstjóra mannúðaraðstoðar (OCHA) , Margaret Chan, forstjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Filippo Grandi, flóttamannastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Oddvitar mannúðarstarfs Sameinuðu þjóðanna gáfu út yfirlýsinguna í dag í Davos, en þing World Economic Forum (WEF) hefst þar á morgun.

Allt að 700 þúsund manns eru enn í herkví í 15 umkringdum borgum, þar af 300 þúsund börn. Talið er að alls búi fimm milljónir manna, þar af tvær milljónir barna, búi á svæðum þar sem mjög erfitt er um vik að afhenda mannúðaraðstoð vegna átaka, óöryggis og heftra samgangna.

„Fólk heldur áfram að þjást um allt Sýrland vegna þess að það vanhagar um nauðþurftir og vegna áframhaldandi ofbeldisverka. Við, og reyndar heimurinn allur, getum ekki horft upp á það þegjandi og aðgerðarlaus að deilendur hindri að fólki berist matur, vatn, lyf og hvers konar aðstoð og noti þetta sem vopn í stríði,“ segir í yfirlýsingunni

Sérstaklega er bent á að heilsu barna sé stefnt í voða því mörg þeirra hafi mátt þola vannæringu, þornun líkamsvefja, niðurgang, smitsjúkdóma og meiðsl. Þá þurfi mörg þeirra á umönnunar að halda eftir að hafa lent í lífshættu og erfiðri lífsreynslu.