Þegar hatur beinist að gyðingum, lýkur því aldrei með gyðingum

0
39
Útrýmingarbúðirnar í Auschwitz-Birkenau í Póllandi.
Útrýmingarbúðirnar í Auschwitz-Birkenau í Póllandi. Mynd: xiquinhosilva/Wikimedia/ Creative Commons Attribution 2.0

Helförin. Gyðingar. Gyðingahatur. Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb Helfararinnar. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við því að gyðingahatriðið sem leiddi til Helfararinnar, hafi hvorki byrjað né endað með þýskum nasistum.

„Í dag horfum við upp á hatursorðræðu breiðast út á ógnarhraða, “segir Guterres í ávarpi á Alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb Helfararinnar 27.janúar.

„Og í dag – sérstaklega í kjölfar viðurstyggilegra hryðjuverkaárása Hamas 7.október – ber okkur að rísa upp gegn öflum haturs og sundrungar.”

Rússneskir gyðingar bíða örlaga sinna við komuna til Auschwitz.
Rússneskir gyðingar bíða örlaga sinna við komuna til Auschwitz. Mynd: Yad Vashem

Frelsun Auschwitz

Alþjóðlegi minningardagurinn um fórnarlömb Helfararinnar er haldinn árlega 27.janúar. Þann dag frelsaði Rauði herinn útrýmingarbúðirnar í Auschwitz-Birkenau árið 1945.

Sex milljónir Gyðinga; börn, konur og karlar voru kerfisbundið myrt af nasistum og samverkamönnum þeirra. Hundruð þúsunda fólks af Roma- og Sintikyni, fatlað fólk og margir aðrir voru ofsóttir og myrtir í Helförinni.

https://youtu.be/VCTHuW7vSC4

 „Í dag, umfram aðra daga, ber okkur að hafa hugfast: að öllum stafar hætta af djöflavæðingu annarra og vanvirðingu við fjölbreytni,“ sagði Guterres. „Eða með eftirminnilegum orðum Jonathan Sacks fyrrverandi yfirrabbína Bretlands: „Þegar hatur beinist að gyðingum, lýkur því aldrei með gyðingum.“

1.1 milljón manna var drepin í Auschwitz (Oświęcim á pólsku) . 90% voru gyðingar.
1.1 milljón manna var drepin í Auschwitz (Oświęcim á pólsku) . 90% voru gyðingar. Mynd: Jason M Ramos/Wikimedia/
Creative Commons Attribution 2.0

Gyðingahatur ber að fordæma

 „Okkur ber ætíð að fordæma undanbragðalaust í hvert skipti sem við verðum vör við gyðingahatur, á sama hátt og við fordæmum hvers kyns kynþáttahatur, fordóma og trúarlegt ofstæki, þar á meðal andúð á múslimum og ofbeldi gegn kristnum minnihlutahópum,“ sagði Guterres í ávarpi sínu.

Sjá einnig hér, hér og hér.