Þversagnir alþjóðlegra stjórnarhátta

0
477
Öryggisráð, Noregur
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fjarfundi.. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til endurbóta á alþjóðlegum stjórnunarháttum. Í grein eftir Guterres sem birt er í ýmsum dagblöðum í heiminum, þar á meðal Fréttablaðinu, segir hann að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sé lamað sökum sundrungar og ýmsar alþjoðastofnanir ýmist of valdlitlar eða of ólýðræðislegar til að skila tilætluðum árangri. Greinin fer hér á eftir.

Þversagnir alþjóðlegra stjórnarhátta

 eftir António Guterres

Norðurlandaráð
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að máli 11.mars 2019. Mynd: UN Photo / Mark Garten

Stór hluti starfs míns, sem aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, er að ræða við veraldarleiðtoga og fylgjast með alþjóðlegum hreyfingum. Ég tel ljóst að á þessari stundu stöndum við á vegamótum í alþjóðlegum samskiptum. Þrátefli ríkir í ákvarðanatöku á heimsvísu sem rekja má til grundvallar þversagnar.

Annars vegar viðurkenna margir forystumenn heimsins að við glímum við sameiginlega vá – COVID, loftslagið og stjórnlausa þróun nýrrar tækni. Þeir eru sammála því að eitthvað beri að gera. En þessum sameiginlega skilningi fylgja ekki sameiginlegar aðgerðir.

Raunar fer sundrung vaxandi.

Þessa sjást merki hvarvetna. Dreifing bóluefnis er ósanngjörn og ójöfn. Hagur hinna fátæku er fyrir borð borinn í hinu alþjóðlega efnahagskerfi. Viðbrögð við loftslagsvánni eru algjörlega ófullnægjandi. Stafræn tækni og fjölmiðlaumhverfi hagnast á sundrungu. Órói og átök fara vaxandi í heiminum.

Hvers vegna er þá svo erfitt að fylkja liði heimsins til að takast á við þennan vanda, ef allir eru sammála um greiningu á þessum sameiginlegu viðfangsefnum?

Ég tel að það séu tvær ástæður, sem liggja til grundvallar.

Innanlandsmál ráða utanríkisstefnu

Í fyrsta lagi vegna þess að utanríkisstefna endurspeglar oft og tíðum innanlandsstjórnmál.

Ég þekki það vel, sem fyrrverandi forsætisráðherra, að innanlandsmál geta tekið alþjóðamál í gíslingu. Meintir þjóðarhagsmunir eru teknir fram fyrir hagsmuni alheimsins.

Slíkar hvatir eru skiljanlegar, jafnvel þó það sé öfugsnúið, þegar samstaða eru einnig í þágu hagsmuna einstakra ríkja.

Bólusetningar COVID-19
Mynd: CDC/Unsplash

Bóluefni er kjörið dæmi.

Það er auðskiljanlegt að veira á borð við COVID-19 virðir engin landamæri. Við þurfum á bólusetningum um víða veröld að halda til að draga úr hættu á nýjum og hættulegum afbrigðum, sem herja á hvern einasta mann í hverju einasta ríki.

Í stað þess að setja bóluefni fyrir alla í alþjóðlegu bólusetningaráætlun í fyrirrúm, hafa ríkisstjórnir horft til eigin þegna. En það er ófullnægjandi stefnumótun.

Auðvitað ber ríkisstjórnum að tryggja hag sinna eigin þegna. En ef ekki er unnið samtímis að því að bólusetja allan heiminn, kann bóluetning heimafyrir að vera gagnslaust vegna nýrra afbrigða sem skjóta upp kollinum og dreifast um allan heim.

Úreltar, bitlausar alþjóðastofnanir

Í öðru lagi eru margar af alþjóðastofnunum heimsins og regluverk úrelt eða of bitlaus. Nauðsynlegar umbætur eru stöðvaðar vegna pólitískrar og landfræðilegrar sundrungar.

Valdsvið Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar er þannig miklu minna en þörf krefur til að glíma við heimsfaraldra.

Á sama tíma eru alþjóðlegar stofnanir annað hvort lamaðar af sundrungu, eins og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, eða ólýðræðislegar eins og margar alþjóðlegar fjármálastofnanir.

Öryggisráðið

Í stuttu máli eru alþjóðlegir stjórnunarhættir ófullnægjandi á sama tíma og heimsbyggðin ætti að þjappa sér saman til að leysa hnattrænan vanda.

Við þurfum að vinna saman í þágu landa okkar og heimsins alls til að vernda sameiginleg gæði á borð við lýðheilsu og þolanlegt loftslag, sem eru forsendur velferðar mannkyns.

Umbætur af þessu tagi eru þýðingarmiklar ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur á heimsvísu, hvort heldur í því að koma á friði, greiða fyrir sjálfbærri þróun, efla mannréttindi og virðingu fyrir öllum.

Aðgerðaleysi er ekki í boði

Þetta er erfitt og margslungið viðfangsefni, enda verður að taka tillit til fullveldis hvers ríkis.

En aðgerðarleysi er ekki ásættanlegur kostur. Heiminn vantar sárlega öflugra og lýðræðislegra alþjóðlegt ferli, sem getur leyst vanda íbúanna.

Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á að örlög okkar allra eru samtvinnuð. Þegar við skiljum einn eftir, hættum við á að skilja alla eftir. Þeir heimshlutar, ríki og þjóðir sem höllustum standa fæti, verða harðast fyrir barðinu á þessari þversögn í alþjóðamálum. En hverjum einasta manni, hvar sem hann býr, stendur bein ógn af þessu.

Góðu fréttirnar eru þær að það er á okkar færi að takast á við hnattrænar áskoranir. Mannkynið getur leyst þau vandamál sem maðurinn hefur skapað.

Sameiginleg áætlun okkar 

Í september síðastliðnum lagði ég fram skýrslu um þessi málefni. Sameiginleg áætlun okkar (Our Common Agenda) er fyrsta skrefið; vegvísir um hvernig má fylkja liði heimsins til að takast á við þessa alheims stjórnunarhætti og blása nýju lífi í milliríkja-samskipti á 21.öldinni.

Breytingar eru ekki auðsóttar og þær munu ekki gerast eins og hendi sé veifað. En við getum hafist handa við að finna þau atriði sem einhugur er um og þokast áleiðis til árangurs.

Þetta er stærsta prófraun okkar, því mikið er í húfi.

Við sjáum nú þegar afleiðingarnar. Þegar fólk trúir ekki á gagnsemi stofnana, missir það einnig trúna á þau gildi sem stofnanirnar eru reistar á.

Í hverju heimshorni sjáum við vaxandi vantraust og ég óttast að sameiginleg gildi okkar eigi í vök að verjast.

Óréttlæti, ójöfnuður, vantraust, kynþáttahatur og mismunun varpa dökkum skugga á hvert samfélag.

Við verðum að endurreisa reisn mannkynsins og sæmd þess og svara kvíðafullum almenningi.

Andspænis vaxandi innbyrðis tengdum hættum, hrikalegri mannlegri þjáningu og sameiginlegri ógn, ber okkur skylda til að láta rödd okkar heyrast og grípa til aðgerða til að slökkva eldinn.

António Guterres er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9.febrúar 2022.