Tifandi mengunar- tímasprengja aftengd

0
54
FSO Safer við akkeri undan vesturströnd Jemen
FSO Safer við akkeri undan vesturströnd Jemen. Mynd: UN Jemen.

Tekist hefur að ljúka því að koma allri olíu af sökkvandi olíuflutningaskipi undan ströndum Jemen. Óttast hafði verið að yfirvofandi væri hrikalegt mengunarslys því rúmlega ein milljón tunna af hráolíu var um borð. Sameinuðu þjóðirnar voru í fararbroddi björgunaraðgerða.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði því að tekist hefði að flytja alla olíuna slysalaust yfir í annað olíuflutningaskip. Risa-olíuflutningskipið FSO Safer var byggt 1976 en áratug síðar var því breytt í fljótandi olíubirgðastöð.

Hættuástand í heimshlutanum

Eftir að borgarastríðið braust út 2015 var skipið yfirgefið utan við höfnina í Hudaydah. Þá hætti olíuvinnsla á Ma´rib vinnslusvæðinu og viðhald við skipið einnig.

Sameinuðu þjóðirnar höfðu ítrekað varað við hættunni af hálfónýtu skipinu fyrir Jemen og heimshlutann við Rauða hafið. Ef skipið hefði sokkið eða olían lekið á annan hátt hefði verið hætta á meiri háttar mengunarslys. Höfnin í Hudaydah hefði getað lokast og flutningar á mat, eldsneyti og lífsnauðsynlegum vörum, getað stöðvast. Hafa ber í huga að 21 milljón manna í Jemen eða 80% íbúanna reiða sig á aðstoð.

Langur undirbúningur

Sameinuðu þjóðirnar hafa undanfarin tvö ár safnað fé til björgunaraðgerða. Starfsfókl á vegum Sameinuðu þjóðanna hóf að dæla olíu af skipinu í annað skip 25.júlí.

„Við erum stolt af því á þessari stundu að fólk í öllu Sameinuðu þjóða-kerfinu ásamt fjárveitendum og samstarfsaðilum hafa unnið linnlaust undanfarna mánuði og ár við að koma í veg fyrir stórslys í landi sem átti þegar undir högg að sækja vegna langvarandi átaka,“ sagði Achim Steiner forstjóri Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.