Reynt að koma í veg fyrir mengunarslys á Rauða hafi

0
65
Olíuskipið Safer utan við strönd Jemens.
Olíuskipið Safer utan við strönd Jemens. Mynd: SÞ

Mengun. Jemen. Sameinuðu þjóðirnar reyna nú að koma í veg fyrir alvarlegt mengunarslys á Rauða hafi undan ströndum Jemens. Verið er að flytja meir en eina milljón tunnur af hráolíu úr olíuskipinu Safer, en óttast er að það geti sokkið þá og þegar.  Sameinuðu þjóðirnar keyptu olíuskip til verksins og var hafist handa í morgun við að flytja olíuna frá sökkvandi skipinu í morgun.

„Sameinuðu þjóðirnar eru með þessu að aftengja sannkallaða umhverfis-tímasprengju,” sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Ef olía úr milljón tunnum af olíu myndu lenda í Rauða hafinu, yrði það geigvænlegt umhverfisslys sem einnig hefði efnahagslegar afleiðingar.

Meira en Exxon Valdez

Olían um borð er fjórum sinnum meiri en var um borð í Exxon Valdez. Olía úr því olíuskipi olli mikilli mengun við Alaska árið 1989. Afleiðingarnar hefðu orðið miklar á kóralrif, fenjavið og líf í hafinu almennt. Ein milljón manna hefði mátt þola verulega mengað andrúmsloft.

Þá hefðu hafnir getað lokast og flutningar matvæla, eldsneytis og hjálpargagna fyrir 17 milljónir manna stöðvast. Sá fjöldi fólks reiðir sig nú þegar á matvælaaðstoð.

Hundruð þúsunda starfa í fiskiðnaði hefðu áreiðanlega tapast, en talið er að það hefði tekið 25 ár fyrir fiskistofna að ná sér. Hreinsunaraðgerðir hefðu getað kostað 20 milljarða dala.

Fjársöfnun

Safnast hafa 115 milljónir dala til að standa straum af kostnaði við aðgerðir til að oma í veg fyrir mengunarslys og hafa ríki, fyrirtæki og almennir borgarar látið fé af hendi rakna. Enn skortir 28 milljónir dala til að fjármagna björgunarverkefnið.