Tröllaukið starf óunnið ári eftir skjálftann á Haití

0
458
alt

Sameinuðu þjóðirnar horfa nú um öxl þegar þess er minnst að ár er liðið frá jarðskjálftanum mannskæða á Haití sem kostaði tvö hundruð og tuttugu þúsund manns lífið auk þess sem hálf önnur milljón misstu heimili sín.

alt
Í yfirlýsingu sem talsmaður gaf út í nafni hans segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að viðbrögð Sameinuðu þjóðanna og annara hefðu verið ein stærsta aðgerð sögunnar enda hefðu náttúruhamfarirnar verið án fordæmis. “Enn verður að efla og endurnýja átak okkar. Framkvæmdastjórinn hvetur alþjóða samfélagið til að halda áfram að styðja Haítíbúa,” segir í yfirlýsingunni.

Yfirmenn stofnana Sameinuðu þjóðanna hafa bent á þá miklu erfiðleika sem hefur þurft að yfirstíga og að mikið verk sé framundan í enduruppbyggingu.
“Verkefnið hefur verið tröllaukið – það hefur allt lagst á eitt og aðstæður og atvik hafa verið eins erfið og hugsast getur. Saman fer að hér á í hlut ein fátækasta þjóð heims, mannfall var mikið, mörg áföll riðu yfir hvert á fætur öðru, mikilvæg gögn eyðilögðust, embættismannastéttin var nánast þurrkuð út og hrikalegar skemmdir urðu á mannvirkjum og  innviðum landsins,” skrifar Anthony Lake, forstjóri Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í grein í bandaríska dagblaðið Miami Herald. alt

“Tafir á því að lofuð aðstoð berist hefur enn gert enduruppbygginguna erfiðari,” skrifar hann og bendir á að kólerufaraldurinn sem sigldi í kjölfar hamfaranna hafi kostað 3.600 manns lífið og 150 þúsund manns hafa þegar smitast.
“Þetta eru gríðarmikilir fordæmalausar hindranir. En þegar við lítum um öxl ættum við að minnast þess að þetta hefði getað farið enn verr og að árangur hefur náðst jafnvel við þessar skeflilegu aðstæður.”

                                          Anthony Lake var skipaður forstjóri UNICEF í sumar


Josette Sheeran, forstjóri matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) segir að á fyrstu sex vikunum eftir skjálftann hafi stofnunin útvegað 4 milljónum Haítíbúa matvæli og sjái enn 2 milljónum fyrir mat ýmist með skólamáltíðum, atvinnuátaki og sérstakri aðstoð við ófrískar konur, konur með börn á brjósti og börn þeirra.
“Mikið hefur áunnist en mikið er ógert,” segir í yfirlýsingu hennar.
Edmond Mulet, hæst setti erindreki Sameinuðu þjóðanna á Haítí segir í skýrslu að nauðsyn krefji að alþjóðasamfélagið beiti kerfisbundnari aðgerðum í að hjálpa Haítíbúum við að endurreisa réttarríki og stuðla að félagslegri- og efnahagslegri þróun en ágreiningur um úrslit kosninganna í nóvember geti skapað enn meiri upplausn. 
“Ef ekki næst árangur í því að koma á lögum og reglu á Haítí gæti núverandi og komandi starf okkar við að endurreisa Haítí, hvort heldur sem er í endurbyggingu, efnahags- og félagslegri þróun, mannúðaraðstoð, öryggi og pólitískum stöðugleika, orðið að engu,” segir Mulet.