Alþjóðadagur gegn misnotkun umhverfisins í stríði. Einn af fylgifiskum styrjaldarátaka eru umhverfisspjöll. Þetta gleymist auðveldlega enda hafa styrjaldir gríðarleg önnur áhrif á líf fólks, hvort heldur sem er mannfall, mannréttindabrot eða eyðilegging borga.
Eins skelfilegt og þetta er, er einnig ástæða til að minna á mikil umhverfisspjöll á borð við eitrun vatnsbóla og jarðvegs, eyðing uppskeru, skógarbruna, og dýr sem drepin eru í hernaðarskyni
Sameinuðu þjóðirnar beita sér fyrir umhverfisvernd og umhverfisbótum í friðarviðleitni og friðargæsluverkefnum. Endurreisn er torveld þegar friði hefur verið komið á en náttúruauðlindum, sem fólk reiðir á sér til lífsviðurværis, hefur verið spillt, og vistkerfum raskað. Að átökum loknum eru nátturuauðlindri sérhvers lands helsti grundvöllur efnahagslegrar endurreisnar, atvinnu og lífsviðurværis.
Að mati Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) hafa 40% innanlandsátaka á síðustu 60 árum tengst nýtingu náttúruauðlinda. Dæmi um þetta eru verðmæti á borð við timbur, demanta, gull og olíu, auk frjósams ræktarlands og vatns. Þegar átök snúast um auðlindir er tvisvar sinnum líklegra að friðarsamkomulög séu rofin.
Í skýrslu UNEP um grænvæðingu friðargæslu Sameinuðu þjóðanna, „Greening the Blue Helmets,“ er komist að þeirri niðurstöðu að oft og tíðum þurfi að takast á við hættur og tækifæri sem tengist náttúruauðlindum, til að ná árangri í friðargæslu. Ekki sé hægt að sniðganga þessi atriðið þegar viðhalda skal friði og öryggi.
Loftslagsbreytingar gætu orðið olía á eld átaka
Því er spáð að úrkoma í heimshluta Ísraels og Palestínu muni minnka um 10-30% til aldamóta og hitastig hækka um 3 til 5 gráður á Celsius. Þetta mun hafa mikil áhrif á landbúnað og matvælaframboð, valda óstöðugu verði og matarskorti.
Komist var að því í rannsókn á vegum vísindamanna hjá Háskóla Sameinuðu þjóðanna 2022 að vatnsbirgðir Palestínumanna væru að mestu undir stjórn Ísraels. Þá væri líklegt að 80% vatnsbóla gufuðu upp innan nokkurra áratuga.
Núverandi átök og ört minnkandi úrkoma á svæðinu kann að auka beint og óbeint hættu á þurrkum, valda skakkaföllum í landbúnaði og stuðla að fjölgun skordýra og skaðlegra sníkjudýra. Aðgangur að vatni er svo þýðingarmikill til að stuðla að heilbrigði og hreinlæti. Vatnsskortur kann að auka hættuna á útbreiðslu farsótta.
Vatnsskortur ýtir undir átök
Eyðileggingin á Gasa hefur beint kastjósi að umhverfismálum og lýðheilsu. Íbúar Gasa hafa árum saman orðið fyrir barðinu á afleiðingum loftslagsbreytinga. Nýlegar árásir hafa grafið undan möguleikum til að finna vatn.
Hver manneskja þarf 100 lítra af vatni á dag, að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Í rannsókn Háskóla Sameinuðu þjóðanna kemur fram að hver Palestínumaður á Gasa hafi haft aðgang að 45 lítrum á dag, 50 í Jerúsalem og Vesturbakkanum og sums staðar aðeins 20.