Valdaójafnvægi á milli kynjanna eftir António Guterres

0
698
Guterres
Antonío Guterres aðalframkvæmastjóri Sameinuðu þjóðanna

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að launabilið á milli kynjanna sé fyrst og fremst birtingarform valdaójafnvægis. Hann bendir á að haldi fram sem horfir verði launabilið brúað eftir 257 ár. Þetta kemur fram í kjallaragrein sem Guteress birtir í dagblöðum í heiminum, þar á meðal Fréttablaðinu, í aðdraganda Alþjóðlega kvennadagsins 8.mars.

Valdaójafnvægi á milli kynjanna  – eftir António Guterres

Kynbundið misrétti er mesta óréttlæti okkar tíma og stærsta mannréttindamál sem við glímum við. En jafnrétti kynjanna býður líka upp á lausnir á sumum af torleystustu vandamálum samtímans.

Hvarvetna eru konur verr settar en karlar, einfaldlega af því að þær eru konur. Enn syrtir í álinn ef þær eru úr minnihlutahópi, eru aldraðar, fatlaðar eða í hópi farand- eða flóttafólks.

Undanfarna áratugi hafa orðið miklar framfarir í réttindamálum kvenna, hvort heldur sem er við afnám mismununar úr lögum eða fjölgun kvenna á skólabekk, en nú stöndum við andspænis öflugum andróðri. Lagaleg vernd gegn nauðgun og heimilisofbeldi hefur verið útvötnuð í sumum ríkjum. Annars staðar verða konur fyrir barðinu á stefnumótun þar sem hallar á þær; allt frá niðurskurði til þvingaðra barneigna.

Sótt er að kynferðis- og frjósemisréttindum kvenna úr öllum áttum.

Allt á þetta rætur að rekja til þess að jafnrétti kynjanna snýst fyrst og fremst um vald. Aldagömul mismunun og djúpstætt feðraveldi hafa skapað breitt bil á milli kynjanna í efnahagslífinu, stjórnmálakerfinu og fyrirtækjunum. Dæmin eru hvarvetna.

Konum er meinað að sitja í öndvegi hvort heldur sem er í ríkisstjórnum eða fyrirtækjastjórnum eða við útdeilingu eftirsóttra verðlauna. Kvenkynsleiðtogar og opinberar persónur sæta ofsóknum, hótunum og svívirðingum í netheimum sem annars staðar. Launabil kynjanna er aðeins birtingarform valdaójafnvægis.

Tölfræði sem ákvarðanir byggja á frá borgarskipulagi til lyfjaprófa er oftast talin hlutlaus. Þegar grannt er skoðað byggir hún oft á því að karlar séu regla og konur frávik.

Konur og stúlkur verða oft að sætta sig við aldagamla kvenfyrirlitningu og að afrek þeirra séu hunsuð. Hæðst er að konum og þær sagðar láta stjórnast af móðursýki eða hormónaflóði og þurfa að sæta endalausum uppspuna og bannhelgi vegna náttúrulegrar líkamsstarfsemi. Þær eru oft og tíðum dæmdar út frá útliti og líða fyrir hversdagslega karlrembu og hrútskýringar.

Allt þetta hefur áhrif á okkur öll og er þrándur í götu þess að finna lausnir á mörgum helstu vandamálum og vá sem við er að glíma.

257 ár

Tökum ójöfnuð sem dæmi. Konur hafa 77 aura í tekjur fyrir hverja krónu sem karlar þéna. Síðasta rannsókn Alheims efnahagsvettvangsins (World Economic Forum) bendir til að það taki 257 ár að brúa þetta bil. Enn vinna konur og stúlkur í heiminum 12 milljón milljónir ógreiddra vinnustunda á heimilum á degi hverjum. Þessa sjást hvergi merki í efnahagslegum ákvörðunum. Ef við viljum stefna að réttlátari hnattvæðingu í þágu allra ber okkur að miða stefnumótun okkar á tölfræði sem tekur tillit til raunverulegs framlags kvenna.

Stafræn tækni er annað dæmi. Það er áhyggjuefni hve mikið ójafnvægi á milli kynjanna ríkir í háskólum, sprotafyrirtækjum og kísildölum þessa heims. Þessi tæknisetur móta samfélög og hagkerfi framtíðarinnar og það er ólíðandi að þar skjóti drottnun karla enn dýpri rótum.

Lítum á styrjaldir sem skaða heiminn. Það er bein lína á milli ofbeldis gegn konum, kúgun borgara og átaka. Framkoma hvers samfélags við þann helming sem tilheyrir kvenkyninu er ávísun á hvernig farið er með alla aðra þegna. Jafnvel í friðsömum samfélögum eru konur í lífshættu á sínum eigin heimilum.

Það er líka kynjamunur í viðbrögðum okkar við loftslagsvánni. Í markaðssetningu vara sem miða að endurnýtingu og neysluminnkun er höfðað til kvenna, en karlar eru líklegri til að treysta á óreyndar tæknilausnir. Og konur í hópi hagfræðinga og þingmanna eru líklegri en karlar til að styðja umhverfisvæna stefnumótun.

Stjórnmál 

Loks er hlutur kvenna í stjórnmálum skýrt dæmi um valdaójafnvægið. Karlar eru að meðaltali þrisvar sinnum fleiri en konur á þjóðþingum heimsins en þar sem þær eru fjölmennar fylgir oft nýsköpun og fjárfestingar í heilbrigðis- og menntamálum. Það er engin tilviljun að það eru ríkisstjórnir undir forystu kvenna sem endurmeta árangur í efnahagsmálum með því að taka tillit til velferðar og sjálfbærni.

Þetta eru ástæður þess að eitt af forgangsmálum mínum hjá Sameinuðu þjóðunum hefur verið að auka hlut kvenna í forystunni. Við höfum náð kynjajafnvægi í æðstu stjórn, tveimur árum á undan áætlun og höfum samið vegvísi til að ná jafnstöðu á öllum sviðum á næstu árum.

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Jafnrétti kynjanna er þýðingarmikill hluti af lausn mála. Mannkynið þarf að takast á við vanda sem karlar hafa skapað. Jafnrétti kynjanna er leið til að endurskilgreina og umbreyta valdi í allra þágu.

Tuttugasta og fyrsta öldin verður að vera öld jafnréttis kvenna í friðarviðræðum og viðskiptasamningum, í stjórnarherbergjum og kennslustofum, á vettvangi 20 helstu iðnríkja heims og hjá Sameinuðu þjóðunum.

Tími er kominn til að hætt sé að reyna að breyta konum og breyta þess í stað kerfum sem hindra þær í að njóta að fullu hæfileika sinna.