WHO sker upp herör gegn rafrettum

0
13
Markaðssetning rafrettna beinist að börnum og unglingum
Markaðssetning rafrettna beinist að börnum og unglingum. Mynd: Grav/Unsplash

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin. Rafrettur. Brýnna aðgerða er þörf til að koma stjórn á rafrettureykingar í því skyni að vernda börn og þá sem ekki reykja, að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Stofnunin segir nauðsynlegt að minnka þá hættu sem almenningi stafar af rafrettum. Hún bendir á að ekki hafi verið sýnt fram á að rafrettur stuðli að því að fólk hætti tóbaksneyslu. Á hinn bóginn hafi uggvænleg dæmi komið fram í dagsljósið um skaðvænleg áhrif á heilsu fólks.

Rafrettureykingar
Rafrettureykingar. Mynd. Bastien Hervé/ Unsplash

Skaðlegar heilsunni

Rafrettur hafa verið markaðssettar opinskátt og með ágengum hætti við ungt fólki. Þótt 34 ríki í heiminum banni sölu rafrettna eru engar reglur gildandi í 74 ríkjum um þær og 88 ríki hafa engan lágmarksaldur um rafrettukaup.

„Börn eru ginnt og veidd í net raffretta á unga aldri og geta ánetjast nikótíni,“ segir dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO. „Ég hvet ríki til að grípa til mjög ákveðinna aðgerða til að vernda borgarana, sérstaklega börn og ungt fólk.“

Rafrettur með níkótíni eru mjög ávanabindandi og skaða heilsuna. Langtíma áhrif eru enn ekki fyllilega ljós. Þó hefur löngu verið sýnt fram á að við neysluna leysast úr læðingi skaðleg efni og eru sum þeirra kunn fyrir að valda krabbameini og auka hættu á hjarta- og lungnasjúkdómum. Rafrettureykingar geta haft neikvæð áhrif á þróun fóstra í barnshafandi konum. Óbeinar reykingar geta einnig valdið skaða.

Lógó WHO og 75 ára afmæli

Mest aukning hjá börnum og unglingum

 „Rafrettum er beint sérstaklega að börnum á samfélagsmiðlum og sama gera áhrifavaldar,“ segir Rüdiger Krech hjá WHO. „Boðið er upp á allt að 16 þúsund brögð. Í sumum tilfellum eru persónur úr teiknimyndum notaðar og margt annað gert til að höfða til ungu kynslóðarinnar. Það er hættulega mikil aukning rafrettuneyslu á meðal barna og ungs fólk og í sumum ríkjum er neysla þeirra meiri en hjá fullorðnu fólki.“

Börn á aldrinum 13-15 ára eru meiri rafrettunotendur en fullorðnir í öllum ríkjum innan WHO. Í Kanada hefur notkun rafrettna á meðal 16-19 ára tvöfaldast frá 2017-2022 og fjöldi ungra notenda hefur þrefaldast á þremur árum í Englandi.