Mikil fjölgun barna sem lifa við fátækt á Íslandi

0
128
Flori Maria er fjögurra ára gömul og er frá Rúmeníu.
Flori Maria er fjögurra ára gömul og er frá Rúmeníu. Mynd: UNICEF

69 milljónir barna í 40 af ríkustu löndum heims bjuggu við fátækt í árslok 2021 að því er fram kemur í skýrslu UNICEF. Fátækt barna á Íslandi hefur aukist næstmest í ESB-OECD ríkjunum eða um rúm 11% þegar borin eru saman árin 2012-2014 og 2019 -2021. Bretland sker sig þó algjörlega úr því þar hefur fátækt barna aukist um nær 20%. Frakkland, Sviss og Noregur koma rétt á eftir Íslandi.

Athygli vekur hins vegar í Evrópu að fátækt á meðal barna hefur minnkað mest í Slóveníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum þremur.

Börn í Úkraínu líða fyrir innrás Rússa í landið.
Börn í Úkraínu líða fyrir innrás Rússa í landið. Mynd: UNICEF

Engin ný föt né símar

Hafa ber í huga að hér er verið að kanna fátækt í þróuðum ríkjum. Fátækt er oftast skilgreind eftir tekjum en fátækt flestra barna í þessari könnun felst í að alast upp á heimilum án fullnægjandi hitunar eða næringarríkrar fæðu, skorti á nýjum fötum, síma og ekkert fé aflögu til að halda upp á afmæli.

„Áhrif fátæktar á börn eru bæði þrálát og skaðleg,“ segir Bo Viktor Nylund forstöðumaður hjá UNICEF Innocenti sem vann skýrsluna. „Sökum fátæktar njóta börn ekki réttinda sinna til fulls og hún getur leitt til slæmrar líkamlegrar og andlegrar heilsu.“

Roma-börn eiga sérstaklega undir högg að sækja.
Roma-börn eiga sérstaklega undir högg að sækja. Mynd: UNICEF

Ólíkar niðurstöður í Evrópuríkjum

 Hlutfall barna sem búa við fátækt í 40 ríkjum Evrópusambandsins og OECD lækkaði um 8% á sjö árum, eða um sex milljónir. Hins vegar er hlutfallið mismunandi. Í ríkjum á borð við Danmörku, Finnlandi og Noregi, lifir um tíunda hvert barn í fátækt, en 12.4% á Íslandi. Í Bandaríkjunum, Ítalíu og Spáni er hlutfallið fjórðungur og 18% í Svíþjóð.

Aukningin í auðugum ríkjum eins og Frakklandi, Íslandi og Noregi vekur sérstaka athygli og þá ekki síður í Bretlandi. Þar var aukningin um 20% en það þýðir að hálf milljón barna til viðbótar hafi færst niður fyrir fátæktarmörk. Hlutfall fátækra barna í landinu er einnig um 20%.

Fátæk börn eru flest í dreifbýli víðast hvar nema í Bretlandi þar sem fátækt er mest í borgum.

  • Sjá einnig hér