Neyðarástand á Haítí

0
746

Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra hafa beðið þjóðir heims um 187 milljónir Bandaríkjadala til að koma nauðstöddum Haítíbúum til hjálpar.

14.ágúst reiða jarðskjálfti yfir suðvesturhluta Haítí sem mældist 7.2 á Richterkvarða. Heimili og innviðir voru lagðir í rúst og þúsundir manna týndu lífi eða slösuðust. Aðeins þremur dögum síðar olli hitabeltislægðin Grace miklum skemmdum á sama svæði og fylgdu miklar rigningar í kjölfarið.

25.ágúst gáfu Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar þeirra út ákall til þjóða heims um að koma íbúunum til hjálpar.

 Dauði og eyðilegging

Fjöldi látinna er kominn yfir tvö þúsund og tvö hundruð. Fer talan hækkandi því öll kurl eru ekki komin til grafar og 340 er enn saknað.  Rúmlega tólf þúsund manns slösuðust. Meir en 800 þúsund manns hafa orðið fyrir barðinu á skjálftanum og óðveðrinu í kjölfarið.

Fjölmargir flúðu heimili sín þegar byggingar hrundu og innviðir eyðilögðust í skjálftanum, þar á meðal þjóðvegir.

Jarðskjálftinn var þó ekki jafn skæður og sá sem olli gríðarlegri eyðileggingu árið 2010. Þá létust 300 þúsund og 1.5 milljón manna slasaðist.

Skjálftinn jók á fyrirliggjandi vanda

Jarðskjálftinn hefði tæpast getað borið upp á verri tíma. 7.júlí var forseti landsins Jovenel Moïse ráðinn af dögum. Ofbeldisalda vegna átaka glæpagengja hefur riðið yfir landið og snertir 1.5 milljón manna. 19 þúsund hafa flúið heimili sín vegna ofbeldishrinunnar.

Samanlögð áhrif hamfara, fyrirleggjandi neyðar, pólitískrar kreppu og aukins ofbeldis hafa leitt til mjög alvarlegs ástands.

Amina Mohammed vara-aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kannar ástandið á Haítí í ágúst.

4.4 milljónir eða 40% landsmanna standa frammi fyrir brýnu fæðióöryggi eins og það heitir á máli hjálparstarfsmanna. 1.1 milljón þarf á neyðaraðstoð að halda og 3.1 milljón er á barmi alvarlegrar kreppu og þarf aðstoð. Talið er að 217 þúsund börn þjáist af misalvarlegri vannæringu. Heilbrigðiskerfi landsins er brothætt og undir miklu álagi vegna heimsfaraldursins.

Sameinuðu þjóða-kerfið telur að 650 þúsund manns þurfi á brýnni mannúðaraðstoð að halda. Af þeim þarf hálf milljón neyðaraðstoð til að halda lífi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa greitt út 8 milljónir dala úr hamfarasjóði samtakanna.

 Erfiður aðgangur og óöryggi

Mikil spenna ríkir á svæðinu. Aðstoð er farin að berast til afskekktra svæða sem urðu einna harðast úti í hamförunum. Óöldin sem ríkir í landinu hefur gert flutninga hjálpargagna afar erfiða.

Samtök heimamanna hafa unnið lofsvert starf, sérstaklega fyrst eftir að hamfararnir urðu

„Heimamenn hafa unnið hetjudáðir,” segir Ramesh Rajasingham aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sem hefur heimsótt hamfarasvæðin.

Ákall Sameinuðu þjóðanna um fjármögnun neyðaraðstoðar er bráðnauðsynlegt.

„Hér er um að ræða neyðarastoð sem ætlað er að bjarga mannslífum. Hún á að duga til að koma fólki yfir erfiðasta hjallann svo það geti sjálft hafið enduruppbyggingu lífs síns,” segir Rajasingham.

„Það er brýnt að við fáum þetta fé eins fljótt og hægt er. Að öðrum kosti munum við horfa upp á enn meiri þjáningar hér á Haítí.“