Að ala upp 36 börn í Afríku

0
818
Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmanna

Á alþjóðlegum degi hjálparstarfsmanna 19.ágúst er kastljósinu beint að öllum þeim sem af óeigingirni og fórnfýsi helga líf sitt mannúðarstarfi.

Einn þeirra er Ólafur Halldórsson, sem rekur munaðarleysingjahæli í Kenía, þar sem þrjátíu og sex munaðarlaus börn, vaxa úr grasi og njóta kennslu og uppeldis. 

Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmanna
Ólafur Halldórsson, fyrir miðju.

Ólafur var á ferðalagi um Afríku árið 2017, þegar hann kom við á munaðarleysingjahæli. „Ég get ekki lýst því sem gerðist á annan hátt að ég hafi fengið köllun,” segir Ólafur í viðtali við vefsíðu UNRIC og rifjar upp hversu illa börnin voru til reika. „Það var rödd innan í höfuðinu á mér sem sagði mér að takast á við þetta. Rödd sem yfirgnæfði allar aðrar raddir.”

Í fyrstu lét Ólafur fé af hendi rakna til stjórnanda munaðarleysingjahælisins til að standa straum af morgunverði fyrir börnin. Hann komst flótlega að því að hann var ekki fyrr horfinn á braut en allt fór í sama far aftur og börnin liðu sult.

„Ég gaf þeim nokkur tækifæri en loks sannfærðist ég um að ég gæti gert þetta betur sjálfur. “

Ekkert ofbeldi, þjófnaður eða ósannindi

Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmannaSvo fór að Ólafur keypti lítið land, þar sem er gamall skóli. Honum tókst að safna saman góðu teymi og smátt og smátt óx starfnu fiskur um hrygg. Í upphafi var það Ólafur sjálfur, fjölskylda hans og vinir sem fjármögnuðu starfið. Félagsskapurinn Björt sýn varð til og Facebook síða var sett á stofn. Hún varð hryggjarstykki í starfinu og það sem kom fram um starfið þar, var fólki hvatning til að láta fé af hendi rakna. Nemendur í Hagaskóla söfnuðu til dæmis fé á góðgerðadegi í þágu samtakanna og sama gerði sjóður sem kýs að starfa í kyrrþey.

„Stefna okkar byggir á einföldum gildum. Ekkert ofbeldi, enginn þjófnaður, engin ósannindi,” segir Ólafur.

Nú rekur Ólafur heimili sem hlotið hefur nafnið Takk. 36 börn búa þar og koma öll úr mjög erfiðum aðstæðum og er mörg þeirra með HIV. „Yfirbyggingin er svo gott sem engin og reksturinn byggir alfarið á stuðningi frá Íslandi, langmest frá einstaklingum,” bendir Ólafur á.

Byrjað á frumþörfum

Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmannaLeitast er fyrst og fremst við að sinna frumþörfum barnanna. Hann segir mikla eymd á þeim slóðum þar sem hann starfar og mikið um munaðarlaus börn. „Menntun er skynsamasta leiðin út úr fátækt”, segir hann og bendir stoltur á að nú þegar hafi einn skjólstæðinga hans lokið eins konar læknaprófi (clinical officer), en að auki hafi aðrir lært raf- og símvirkjun.”

Ræktað er grænmeti á landi heimilisins, saumavélar sem voru keyptar handa heimilinu, nýttar, að því ógleymdu að hænur, geitur og kú koma sér vel. Tilgangurinn er sá að reksturinn geti orðið sjálfbær.

Sæmileg hæna á þúsund-kall

Reykjavíkurmaraþon er hlaupið 20.ágúst og gefst kostur á að hlaupa til styrktar góðu málefni. Áheitasöfnunin fer fram á hlaupastyrkur.is og er hægt að velja á milli fjölmargra góðgerðafélaga, þar á meðal Bjartrar sýnar.

Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmanna
Alþjóðlegur dagur hjálparstarfsmanna

„Við erum lítil sápukúla þarna í Kenía og það ætlum við að halda áfram að vera,” segir Ólafur og minnir á að öll framlög komi sér vel.

Ekki má gleyma því að matur hefur hækkað í verði í Kenía, eins og annars staðar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. „í vetur var hægt að kaupa geit á 5 þúsund íslenskar krónur, nú kostar hún  6-7 þúsund.”

Og þegar haft er í huga að hrísgrjónasekkur kostar 10 þúsund krónur og „sæmileg hæna” eins og Ólafur orðar það, þúsund krónur, er ljóst að lítil þúfa getur lyft stóru hlassi.

Sjá nánar um Alþjóðlegan dag hjálparstarfsmanna hér.