Að hrinda sáttmálanum um að hindra þjóðarmorð í framkvæmd – eftir Louise Arbour,mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna

0
572

Í apríl mánuði undanfarin þrettán ár hefur Alþjóða samfélagið minnst þjóðarmorðsins í Rúanda með samblandi af skömm, iðrun og heitstrengingum um að svo viðbjóðslegir glæpir skuli ekki endurtaka sig.  

 Louise Arbour, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna

Slíkar heitstrengingar munu eflaust heyrast nú þegar 60 ára afmæli sáttmálans um að hindra og refsa fyrir þjóðarmorð nálgast. Afmælið er 9. desember í ár, degi á undan öðru merkilegu sextugsafmæli, afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. En við þurfum að grípa til skilvirkra aðgerða til að uppfylla skuldbindingar okkar um að hindra þjóðarmorð og refsa þeim sem gerast sekir um slíka glæpi. Þær skuldbindingar voru innleiddar í alþjóðalög í kjölfar Helfararinnar. Með því heiðrum við einnig minningu fórnarlamba bæði hamslausra og vandlega skipulagðra hatursofsókna.

Hingað til hefur betur tekist upp með framkvæmd þess kafla sáttmálans sem fjallar um að refsa fyrir þjóðarmorð farnað betur en með aðgerðir til að koma í veg fyrir þau. Raunar hefur alþjóðlegt réttarkerfi tekið af sívaxandi alvöru á glæpum sem flokkast undir þjóðarmorð. Fundist hafa farvegir fyrir lagalega skyldu ríkja til að draga fremjendur þjóðarmorðs til ábyrgðar.  Hér má nefna sérstaka dómstóla á vegum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, hinn sáttmálabundna Alþjóðaglæpadómstól og alheimslögsögu dómstóla einstakra ríkja. 

Hrinda verður þeim kafla sem fjallar um að hindra þjóðarmorð í framkvæmd af sömu festu. Í þessu skyni hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skipað sérstakan háttsettan ráðgjafa sem ætlað er að safna upplýsingum um umfangsmikil og alvarleg mannréttindabrot sem gætu leitt til þjóðarmorðs. Hann á einnig að vinna að því að efla hæfni Sameinuðu þjóðanna til að greina og nota upplýsingar sem tengjast slíkum glæpum. Sérstaka ráðgjafanum er einnig ætlað að samræma aðgerðir annara aðila innan Sameinuðu þjóðanna til að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Framkvæmdastjórinn skipaði árið 2006 sjö sérfræðinga til að styðja sérstaka ráðgjafann og efla viðleitni Sameinuðu Þjóðanna til að hindra þjóðarmorð.

Þetta eru mikilvæg skref í rétta átt. En ég tel bæði rétt og nauðsynlegt að ganga lengra til að tryggja að stofnanir okkar séu í stakk búnar til að fyrirbyggja þjóðarmorð með því að finna þeim stað í sáttmálanum um þjóðarmorð. 

Ólíkt mörgum öðrum mannréttindasáttmálum er ekki gert ráð fyrir eftirlitsferli í sáttmálanum um þjóðarmorð til að fylgjast með því hvort ákvæði sáttmálans séu virt og til að vera ríkjum ráðgefandi um fyrirbyggjandi aðgerðir.  Í fyrsta uppkasti að þjóðarmorðs-sáttmálanum – fyrsta alþjóðlega mannréttindasáttmálanum- var gert ráð fyrir slíku eftirlitskerfi en sú hugmynd skilaði sér ekki inn í lokatextann. 

Frá þeim tíma er komin mikil og góð reynsla á þann jákvæða árangur sem slíkt eftirlitskerfi getur borið á mannréttindasviðinu. Af þeim sökum hafa forysta Sameinuðu þjóðanna, fórnarlömb, baráttumenn og lögspekingar tekið höndum saman við fimmtíu ríki sem komu saman í Stokkhólmi árið 2004 til að berjast fyrir þessu sjónarmiði. Önnur ríki eru þessu hins vegar andsnúin og hafa bent á að þetta geti skarast á við störf sérstaka ráðgjafans og umboð Alþjóðlega glæpadómstólsins sem fjallar um sakamál, þar á meðal þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyninu og stríðsglæpi. 

Ef vel tekst til gæti slíkt eftirlitskerfi greint hættumarki um að upp úr kunni að sjóða með þjóðarmorði. Nánast ævinlega má greina fyrirboða um að slík voðaverk séu í vændum þegar kerfisbundin eða umfangsmikil mannréttindabrot fara stigvaxandi.

Það þarf hvorki að vera flókið né tímafrekt að koma upp slíku kerfi ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Þannig gæti Allsherjarþingið samþykkt ályktun strax í september. Slík aðgerð gæti átt sér fyrirmynd í öðru sambærilegu frumkvæði af hálfu millliríkjastofnana, þar á meðal Efnahags- og félagsmálanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom á fót nefnd til að fylgjast með efnahagslegum-, félagslegum- og menningarlegum réttindum. Aðrar leiðir eru tímafrekari en þó framkvæmanlegar. Þar má nefna breytingar á sáttmálanum auk viðbótar valkvæðs ákvæðis um stofnun slíks eftirlitskerfis. 

Hvaða leið sem er valin, verður hún að miða að því lokamarki, að koma á fót vettvangi sem hefur vald til þess að meta hvort ríki sinni skyldum sínum um að hindra þjóðarmorð; skrjásetja viðleitni þeirra til að refsa fyrir slíka glæpi og gera það opinbert ef þau sinna ekki þessari skilyrðislausu skuldbindingu.