Að fleygja mat á meðan milljónir svelta

0
527

 food waste 2

3. október 2014. „Á sama tíma og ég stend í eldhúsinu heima hjá mér og kasta matvælum, eru milljónir sem lifa við hungur. Mig langar til að brúa þetta bil með einhverjum skynsamlegum hætti,“ segir Elín Hirst, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins sem er ein ellefu þingmanna úr öllum flokkum sem lagt hafa fram þingsályktunartillögu um sóun matvæla.Ella

Vefsíða Vakandi og UNRIC hafði samband við nokkra þingmen sem að tillögunni standa til að forvitnast um ástæður þess að þeir láta sig þetta málefni varða og hvaða vonir þeir gera sér um árangur.

Svandís Svavarsdóttir, Alþingismaður og fyrrverandi umhverfisáðherra Vinstri-grænna hefur raunar einnig lagt fram fyrirspurn til ráðherra um matarsóun. Hún segir að þingsályktunartillagan liggi mjög nærri sínu „pólitíska áhuga- og áherslusviði sem eru umhverfismál.“
Svandís bendir á þá undarlegu staðreynd að hagsæld sé metin með hagvaxtarmælikvarðanum sem til dæmis leggur ekkert mat á það hvort sóun er á ferðinni eður ei. „Þarna eru stóru sóknarfærin, þ.e. í því að breyta mælikvörðum á hagsæld og styrkja þá mælikvarða sem horfa líka til sjálfbærni og ábyrgar nýtingar.“

Guðmundur Steingrímsson, Alþingismaður og flokksbróðir Brynhildar Pétursdóttur, fyrsta flutningsmanns tillögunnar  segir að tilllagan sé góð og tímabær. „Björt framtíð hefur skilgreint sína grænu nálgun m.a. á þann veg að berjast þurfi gegn sóun, í hvaða mynd sem hún birtist. Matvælasóun er mjög nærtækt dæmi um mikla sóun, sem hægt er að vinna gegn með alls konar aðgerðum.“

Elín Hirst bendir á nýlega löggjöf í Belgíu og tillögur þingmanna í Frakklandi sem dæmi um framfaraspor sem stíga mætti á Íslandi. Frönsku þingmennnirnir vilja skylda matvöruverslanir til þess að gefa til góðgerðarmála allan þann mat sem ekki selst. Frakkarnir fylgja þar fordæmi Belga en þeir voru fyrstir til að setja í lög tillögur Evrópusambandsins um að fjarlægja „best fyrir“-merkingar af ýmsum vörum, svo sem pasta, kaffi, hrísgrjónum og sultu, en slíkt ætti að koma í veg fyrir töluverða sóun.

Staðbundin ferskvara og taka með heim

svandísSvandís segir að stærstu skrefin verði stigin á vettvangi ríkja heims og svo á vettvangi ríkisstjórna og sveitarstjórna. „Svo getur auðvitað hver og einn breytt í sínu nánasta umherfi með því að gæta að vistspori í innkaupum, með því að kaupa minna í senn af ferskvöru, kaupa frekar staðbundna ferskvöru og uppskeru hvers árstíma, með því að skipuleggja sig vel og loks með því að elda minna en meira í senn, nýta afganga og elda kássur og súpur þegar hráefnin eru að missa ferskleikann,“ segir umhverfisráðherrann fyrrverandi.

„Að auka umræðu og meðvitund um matvælasóun held ég að væri gott skref,“ segir Guðmundur Steingrímsson. „Mörg smá úrræði gera eitt stórt. Ég var til dæmis á veitingahúsi um daginn. Þar voru stórir skammtar af mjög góðum mat, og ekki nokkur leið að klára. Víða tíðkast að taka með sér heim, jafnvel af fínum veitingahúsum, en það þykir einhvern veginn ekki jafnsjálfsagt á Íslandi sýnist mér. Með aukinni meðvitund um matvælasóun mun það vonandi, innan tíðar, þykja fáránlegt að taka ekki með sér heim.“

Öll þrjú segjast meðvituð um að stemma stigu við sóun matvæla á sínum heimilum.

Kaupa minna inn í einu

„Já ég hef svo sannarlega gert átak í því,“ segir Elín Hirst. „Kaupi miklu minni skammta en áður, sýð minna af hrísgrjónum og spagetti. Læt það ekki aftra mér að neyta t.d. mjólkur eða skyrs sem er komið fram yfir síðasta söludag.“

„Ég get ekki sagt að ég hafi með skipulegum hætti fylgst með matarsóun heima hjá mér,“ segir Svandís Svavarsdóttir. „Hins vegar hefur öll neyslumeðvitund aukist á heimilinu undanfarin ár með aukinni sorpflokkun, dýpri samfélagsumræðu og umfjöllun um þessi mál.“gummi

„Mér finnst alltaf slæmt að sjá matvæli fara í ruslið og við reynum eftir fremsta megni að kaupa skynsamlega inn, ekki meira en við þurfum, og elda heldur ekki meira en við þurfum. Þetta mistekst stundum,“ segir Guðmundur Steingrímsson. „Og eitt höfum við gert á heimilinu nýverið, sem hefur aukið nýtni. Við kaupum inn kvöldmat fyrir þrjá daga í viku í gegnum eldumrett.is<http://eldumrett.is> og fáum uppskriftir sendar og mat í kassa, skammtaðan upp á punkt og prik af vísindalegri nákvæmni fyrir fjölskyldu af okkar stærðargráðu. Mæli með þessu.“