Aðskilnaðarstefna og kynþáttamisrétti

0
1118

mandela.jpgÁrið 1952 hunsaði allsherjarþingið mótmæli Suður-Afríku vegna umfjöllunar þess um aðskilnaðarstefnu en sú aðgerð markaði upphafið að stöðugri viðleitni stofnunarinnar til að berjast gegn skipulögðu kynþáttamisrétti sem þingið hefur nefnt ,,glæp gegn mannkyni". Árið 1962 setti þingið á laggirnar stofnun — síðar kölluð Fastanefnd gegn aðskilnaðarstefnu — sem fór yfir alla þætti aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku og afleiðingar hennar um allan heim og vann sleitulaust að því að binda enda á hana.

Árið 1973 samþykkti þingið alþjóðasamninginn um afnám og refsingu fyrir glæpsamlega aðskilnaðarstefnu. Fjárfestingar fjölþjóðafyrirtækja í Suður-Afríku voru kannaðar ofan í kjölinn af Sameinuðu þjóðunum. Talið er að efnahagslegar, menningarlegar og hernaðarlegar þvingunaraðgerðir sem Sameinuðu þjóðirnar stóðu fyrir hafi stuðlað verulega að því að látið var af aðskilnaðarstefnunni. Árið 1981 héldu Sameinuðu þjóðirnar alþjóðlega ráðstefnu í þeim tilgangi að herða enn frekar refsiaðgerðir gegn Suður-Afríku. Alheimsstofnunin beitti einnig öðrum aðferðum í málinu. Suður-Afríkusjóður SÞ fjármagnaði lögfræðiaðstoð til handa einstaklingum sem voru ofsóttir í krafti aðskilnaðarstefnunnar. Menntunar- og starfsþjálfunaráætlun Sameinuðu þjóðanna fyrir Suður-Afríku aðstoðaði fórnarlömb kynþáttamisréttis.

Í apríl árið 1994 fylgdist eftirlitssveit Sameinuðu þjóðanna í Suður-Afríku, með aðstoð Einingarsamtaka Afríkuríkja, með fyrstu lýðræðislegu kosningunum sem fóru fram í Suður-Afríku án kynþáttamisréttis. Gerðist þetta í kjölfar flókinna samningaviðræðna sem urðu til þess að hið illa þokkaða aðskilnaðarstefnukerfi leið undir lok. Nú gegnir Nóbelsverðlaunahafinn Nelson Mandela, sem sat í 21 ár í Robben Island fangelsinu fyrir pólitíska andstöðu við aðskilnaðarstefnuna, forsetaembætti í ríkisstjórn Suður-Afríku sem sýnir öllum kynþáttum umburðarlyndi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa stöðugt í frammi aðgerðir gegn hvers kyns misrétti. Árið 1969 öðlaðist alþjóðasamningurinn um afnám alls kynþáttamisréttis gildi og sérfræðinganefnd kemur saman á hverju ári til að fylgjast með framkvæmd hans. Gerðar hafa verið sérstakar ráðstafanir, með samþykkt yfirlýsinga og annarra lagagjörninga, í þeim tilgangi að vinna gegn hvers kyns skorti á umburðarlyndi í trúmálum og öðru formi misréttis. Sameinuðu þjóðirnar gengust fyrir því að árið 1965 var ár umburðarlyndis.