Afnám nýlendustefnu

0
690

Árið 1945 bjuggu um 750 milljónir manna, nálægt þriðjungur allra íbúa heimsins á þeim tíma, á landsvæðum sem lutu stjórn annarra ríkja. Nú er þessi tala komin niður í 1,5 milljón. Aðgerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á síðastliðnum fimm áratugum til afnáms nýlendustefnu hafa stuðlað að sjálfstæði fjölmargra fyrrverandi nýlendna og landsvæða sem lutu stjórn annarra ríkja, enda eru þessar þjóðir nú stoltir meðlimir Sameinuðu þjóðanna.

Svo vel hefur verið staðið að þessu starfi að nú eru aðeins örfá landsvæði sem hafa ekki enn öðlast sjálfsstjórn og eru þau undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt XI. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna fylgist nefnd á vegum allsherjarþingsins um afnám nýlendustefnu náið með stöðu þessara landsvæða. Árið 1995 voru 17 slík landsvæði við lýði. Flest þeirra eru smáeyjar í Kyrrahafi og Karíbahafi.

Samkvæmt hinu upprunalega alþjóðlega gæsluverndarkerfi var fylgst með stöðu 11 landsvæða sem höfðu annaðhvort verið á umboðssvæði þjóðabandalagsins, verið aðskilin frá ,,óvinaríkjum" vegna síðari heimsstyrjaldarinnar eða gengust af frjálsum vilja undir kerfið. Gæsluverndarráðið hafði í 49 ár eftirlit með ferlinu sem miðaði að sjálfsákvörðunarrétti þessara landsvæða.

Árið 1960 — þegar 17 þjóðir sem höfðu nýlega öðlast sjálfstæði, þar af 16 afrískar, urðu aðilar að Sameinuðu þjóðunum — samþykkti allsherjarþingið hina sögulegu yfirlýsingu um sjálfstæði til handa nýlendum og þjóðum þeirra en samkvæmt henni stuðlar nýlendustefna að skerðingu grundvallarmannréttinda og því ber að afnema hana tafarlaust.

Sjálfstæði Namibíu árið 1990, sem áður hét Suðvestur-Afríka og var nýlenda Þýskalands, var mikið afrek af hálfu Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði.

Markmið gæsluverndarkerfisins hafa náðst svo vel að öll gæsluverndarsvæðin hafa fengið sjálfsstjórn eða sjálfstæði annaðhvort sem aðskilin ríki eða með því að tengjast sjálfstæðum grannríkjum.

Í nóvember árið 1994 batt öryggisráðið enda á gæsluverndarsamning vegna hins síðasta af 11 upphaflegu gæsluverndarsvæðunum, sem voru á framkvæmdaáætlun þess, gæsluverndarsvæði Kyrrahafseyja (Palau), stjórnað af Bandaríkjunum. Palau-eyja, sem var áður hluti af Míkrónesíu, varð 185. aðildarríki Sameinuðu þjóðanna í desember árið 1994. Með því að gera breytingar á starfsreglum sínum mun gæsluverndarráðið héðan í frá koma saman eftir því sem þess gerist þörf.

Á þessari stundu eiga fimm aðildarríki fasta fulltrúa í gæsluverndarráðinu en þau eru Kína, Frakkland, Rússland, Breska konungsríkið og Bandaríkin.