Afvopnun

0
766

Með undirritun stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna skuldbatt 51 stofnþjóð samtakanna sig til að varðveita heimsfrið og öryggi og stuðla að því ,,þannig að sem minnst af mannafla og fjárhagslegri orku heimsins fari í framleiðslu hergagna". Öryggisráðið og allsherjarþingið hafa með höndum sérstaka ábyrgð á afvopnunarmálum.

disarmament.jpgFyrsta ályktunin sem samþykkt var samhljóða af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna — ályktun 1 (I) frá 24. janúar 1946 — fjallaði um afvopnunarmál. Samkvæmt henni setti allsherjarþingið á fót stofnun í því skyni að ,,fást við þann vanda sem skapaðist við uppgötvun kjarnorku og annarra tengdra mála." Nefnd um hefðbundinn herafla tók höndum saman við Kjarnorkumálanefndina árið 1947 og voru þær fyrstu stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem fengust alfarið við afvopnunarmál.

Nátengd starfi SÞ er afvopnunarráðstefnan þar sem 40 aðildarríki eiga fulltrúa — en hún er eini fjölþjóðavettvangurinn um takmörkun hergagna — og fyrirrennarar hennar, sem hafa samið um takmarkanir á fjölmörgum hættulegum vopnum um allan heim en það hefur meðal annars leitt af sér samning um bann gegn tilraunum með kjarnavopn (1963), samning um að dreifa ekki kjarnavopnum (1970), bann við tilraunum með kjarnavopn á hafsbotni (1971) sem og bann við tilraunum með sýklavopn (1972) og efnavopn (1992).

Allsherjarþingið hefur boðað til þriggja sérstakra funda um afvopnunarmál (1978, 1982 og 1988). Afvopnunarnefndin, sem er skipuð fulltrúum allra aðildarríkjanna, var endurreist eftir fundinn 1978 til að leggja fram viðmiðunarreglur um afvopnunarráðstafanir.

Umboð Sameinuðu þjóðanna til friðargæslu hafa að undanförnu falið í sér afvopnunarverkefni, til að mynda í El Salvador og Angóla, þar sem stríðandi fylkingum hefur verið gert skylt að leggja niður vopn undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna til að uppfylla friðarskilmála. Sérskipaða afvopnunarnefndin í Írak hefur haft eftirlit með því að farið sé að hinum flóknu vopnahlésskilmálum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa yfirumsjón með og bundu enda á Persaflóastríðið árið 1991.

iaea.jpgÍ því skyni að draga úr hættu á kjarnorkustyrjöld stendur Alþjóðakjarnorkumálastofnunin (IAEA) fyrir reglulegum skoðunum á kjarnkljúfum í 90 löndum til að fyrirbyggja að kjarnakleyfum efnum verði breytt svo nota megi þau í hernaðarskyni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa forgöngu um alþjóðlegt átak til að fjarlægja jarðsprengjur af vígvöllum þar sem þessar ósprungnu földu vítisvélar liggja enn og drepa og limlesta þúsundir saklausra borgara.