Algildi mannréttinda – 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar – Annar hluti

0
52
Franski teiknarinn Yacine hefur myndskreytt Mannréttindayfirlýsinguna.
Franski teiknarinn Yacine hefur myndskreytt Mannréttindayfirlýsinguna.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 75 ára. 10.desember verður þess minnst að 75 ár eru liðin frá því að Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna var samþykkt.  Í fyrsta pistli um afmælið var fjallað um tilurð yfirlýsingarinnar. Hér er beint sjónum að því, hvað felist í því að mannréttindi séu algild og hvernig yfirlýsingin liti út, ef hún væri samþykkt í dag.

Chaillot-höll sem hýsti Allsherjarþingið þegar yfirlýsingin var samþykkt, hefur komið víða við sögu. Þar lét Adolf Hitler ljósmynda sig með turninn í bakgrunni í júní 1940. Þá var aðeins ár liðið frá því að haldið var upp 150 ára afmæli frönsku byltingarinnar á sama stað 1939.

Rætur á Vesturlöndum

Allsherjarþingið á fundi í Chaillot-höll.
Allsherjarþingið á fundi í Chaillot-höll. Mynd: UN Photo.

Þegar Eleanor Roosevelt steig í ræðustól í Chaillot höll fyrir 75 árum og mælti fyrir samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna dró hún ekki dul á vestrænar rætur hennar.

„Við erum á miklum tímamótum jafnt fyrir Sameinuðu þjóðirnar sem mannkynið. Þessi mannréttindayfirlýsing getur orðið alþjóðleg Magna Charta, allra manna, alls staðar. Við vonum að staðfesting Allsherjarþingsins verði álíka viðburður og þegar franska þjóðin samþykkti mannréttindayfirlýsingu sína og Bandaríkjamenn réttindaskrá sína, auk ýmisra annara sambærilegra yfirlýsinga annara þjóða á ýmsum tímum.“

Mannréttindayfirlýsing frönsku byltingarinnar
Mannréttindayfirlýsing frönsku byltingarinnar. Mynd: Wikimedia.

Engan greinarmun skal gera

Í annari grein manréttindayfirlýsingarinnar segir:

Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

Teiknimyndafígúran Elyx eftir YAK hefur verið notuð til að myndskreyta Mannréttindayfirlýsinguna
Teiknimyndafígúran Elyx eftir YAK hefur verið notuð til að myndskreyta Mannréttindayfirlýsinguna

Eins og fram kemur í þessari grein er mannréttindayfirlýsingin algild og á við um alla, alls staðar.

„Algildishugmyndin sem Mannréttindayfirlýsingin og mannréttindaorðræðan hvílir á, er einhver mesti kraftur mannréttindahugmyndarinnar,“ segir Valgerður Pálmadóttir hugmyndasagnfræðingur og nýdoktor við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. „Þetta er eitthvað sem veitir fólki innblástur og er hluti af því hvernig mannréttindasáttmálar og yfirlýsingar, hafa öðlast sess eins og einhver trúarleg rit.“

Þótt flest í hauskúpusafni Mannfræðisafnsins séu frá þróunarríkjum, eru þar am. þrjár hauskúpur frá Íslandi.
Þótt flest í hauskúpusafni Mannfræðisafnsins séu frá þróunarríkjum, eru þar am. þrjár hauskúpur frá Íslandi. Mynd. Árni Snævarr

Nýlendustefna og kvennakúgun

Chaillot höllin í París hýsti ekki aðeins Allsherjarþingið við samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar. Þar eru í dag nokkur söfn. Þar á meðal eru franska flotasafnið og mannfræðisafnið. Flotasafnið er öðrum þræði minnisvarði um franska flotann, sem líftaug til nýlendnanna. Mannfræðisafnið státar svo af einu stærsta safni af hauskúpum úr öllum heimshornum en þær voru á árum áður ær og kýr kynþáttahyggjumanna, sem mældu þær á alla enda og kanta og drógu miklar ályktanir af því, oft um yfirburði hvíta kynstofnsins.

Engin yfirlýsing hefur verið þýdd á jafmörg mál og Mannréttindayfirlýsingin eða 555.
Engin yfirlýsing hefur verið þýdd á jafmörg mál og Mannréttindayfirlýsingin eða 555. Mynd: Árni Snævarr.

„Og líka er talað um það, að á nákvæmlega sama tíma og þessar hugmyndir um að allir menn séu bornir frjálsir og jafnir, þá hafi líka sprottið fram alls konar hugmyndir um hvernig ætti að aðgreina fólk; vísindakenningar um hvernig ætti að renna stoðum undir það að konur og ekki hvítt fólk ætti ekki rétt á fullum borgarlegum réttindum, og svo framvegis,“ segir Valgerður Pálmadóttir.

Mannréttindadagurinn
Konur áttu töluverðan þátt í samningu Mannréttindayfirlýsingarinnar og er framlag Eleanor Roosevelt þekktast. Á myndinni hér að ofan sést blaðamannafundur undirnefndar um málefni kvenna. Frá vinstri til hægri: Angela Jurdak (Líbanon), Fryderyka Kalinowski (Pólllandi), Bodgil Begtrup (Danmörku síðar sendiherra á Íslandi), Minerva Bernardino (Dóminíkanska lýðveldinu) og Hansa Mehta (Indlandi). Mynd: UN Photo.

Nýlendustefnan hafði ekkki verið brotin á bak aftur 1948 þótt hún væri í andaslitrunum. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, sem greiddu atkvæði, voru þá ekki nema 58. Ríki á borð við Þýskaland, Ítalíu og Japan voru röngum megin  í heimsstyrjöldinni og höfðu enn ekki fengið aðild. Aðildarríkjununum  fjölgaði þó mest þegar nýlenduveldi Evrópu liðuðust í sundur og eru nú 193. Oft er sagt að raddir nýfrjálsu ríkjanna hafi ekki heyrst.

Þrettán Afríkuríki, þar á meða Gana, urðu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna 1960.
Stjórnarerindrekar frá þrettán Afríkuríkjum, settust í fyrsta skipti á Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þar á meðal Gana (mynd) 1960. Mynd: UN Photo.

Mannréttindasáttmálar náð víðtækri útbreiðslu

„Þessi kvörtun um að vestræn áhrif hafi ráðið ferðinni…þessi röksemd heyrist mjög oft, en ég held hún eigi ekki endilega rétt á sér,“ segir Guðmundur Alfreðsson fyrrverandi prófessor í þjóðarrétti og mannréttindum. „Þetta kemur líka frá stjórnvöldum, sem reyna að nota þetta sem röksemd til að veikja mannréttindareglurnar. Yfirlýsingin var samþykkt með 48 atkvæðum en ef við lítum á helstu samningana í dag, eins og samninginn um barnaréttindi þá hefur hann verið staðfestur af 190 ríkjum, þannig að það eru ríki úr öllum heimshlutum sem síðan hafa skrifað undir og staðfest þessar mannréttindareglur.“

Truman-yfirlýsingin var gefin út 1948 og Marshall-aðstoðin hófst. Loftbrúin til Berlínar hafði verið reist til að brjóta á bak aftur þá herkví sem Sovétríkin höfðu sett borgina í.
Truman-yfirlýsingin var gefin út 1948 og Marshall-aðstoðin hófst. Loftbrúin til Berlínar hafði verið reist til að brjóta á bak aftur þá herkví sem Sovétríkin höfðu sett borgina í. Mynd: Wikimedia.

Umfjöllunin um mannréttindayfirlýsinguna fór fram í skugga hins kalda stríðs austurs og vesturs. Þótt kommúnistaríkin, eins og þau voru kölluð í daglegu tali, gagnrýndu margt í yfirlýsingunni lögðu Sovétríkin þó ekki fram eiginn valkost eða heildstæða tillögu.

„Á þesum tíma í lok fimmta áratugarins eru Sovétmenn, eins og kannski allir aðrir, að hugsa um hið nýja heimsskipulag eftir síðari heimsstyrjöld, en þeir í rauninni út af harðstjórn Stalíns heimafyrir eru að horfa á sínar eigin alþjóðastofnanir; þeir búa til sín eigin alþjóðasamtök í sínum kommúnistíska heims, ef svo má segja,“ segir Rósa Magnúsdóttir prófessor í sögu við Háskóla Íslands.

Yrði Mannréttindayfirlýsingin samþykkt í dag?

Sú spurning vaknar eðlilega hvað yrði upp á teningnum ef semja ætti nýja Mannréttindayfirlýsingu í dag og margir efast um að það væri gerlegt.

Auk mikillar fjölgunar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna eru ýmis málefni nú í deiglunni, sem tæpast var minnst á fyrir 75 árum.

Alþjóðlegur dagur gegn andúð á sam- og tvíkynhneigðum og transfólki 17.maí.
Ástfrelsi og kynvitund kynnu að koma við sögu ef Mannréttindayfirlýsingin yrði tekin saman á ný.  Mynd:Alexander Grey/Unsplash

„Það er einmitt góð spurning, hvort svona yfirlýsing yrði samþykkt í dag, eða hvort við lifum í svo marg-pólaríseruðum heimi að það tækist nokkurn tíma að samkomulagi eins og þessu,“ segir Valgerður Pálmadóttir hugmyndasagnfræðingur. „Á meðan einn helsti krafturinn í að koma á mannréttinda-orðræðinu var að þetta væri handan-pólitíkur hvers staðar og stundar, þá eru þau mannréttindabrot, sem fólk er að upplifa, frekar sértæk og eru breytileg í sögulegu tilliti, og aðstæðubundin. Þannig að það eru aðrir, sem segja að það ætti að taka þessi plögg niður á jörðina og sjá þetta frekar sem pólitíska stefnu sem við getum vel haldið áfram að betrumbæta og bæta við, og svo framvegis, og frekar hafa þetta ítarlegt en mimimalískt.“

Alþjóðlegi umhverfisdagurinn
Litið er á rétt til hreins mhverfis sem mannréttindamál. Mynd: UN News/Laura Quiñones

Ný þemu

„Svo má velta fyrir sér hvaða þemu kæmur inn í svona yfirlýsingu ef við ætluðum að byrja á núlli í dag,“ segir Kári Hólmar Ragnarsson lektor í lögfræði við Háskóla Íslands. „Það er kannski erfitt að ímynda sér það, en við vitum hvað hefur verið sett inn í mannréttindasáttmála. Það eru réttindi tiltekinna hópa, kvenna, barna, fatlaðs fólks og farandverkafólks. Síðan eru atriði sem hafa fengið meiri skoðun á undanförnum árum, eins og umhverfismál, gervigreind og réttarríkið, sem maður gæti ímyndað sér að kæmi til skoðunar. En þetta sýnir okkur kannski fyrst og fremst, hvað þetta tungutak mannréttinda er orðið mörgum tamt. Þegar ný álitaefni eins og gervigreind koma til tals, þá er það tungutak mannréttinda og þeirra stofnana, sem um þau fjalla, sem fólki finnst liggja beinast við að nota.“

Þessi grein er annar hluti í umfjöllun um Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Fyrsta hlutann má sjá  hér.

Sjá Mannréttindayfirlýsingunahér.

Sjá nánar hér  hér. 

75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar sjá hér.