Yfirlýsingin ruddi brautina – 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar- þriðji hluti

0
48
Grænland Mannrétindi Frumbyggjar
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. UN Photo

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 75 ára. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt fyrir 75 árum á fundi Allsherjarþings samtakanna í Chaillot höll í París eða hinn 10.desember 1948. Síðan hefur þessi dagur verið haldinn hátíðlegur sem Alþjóðlegur dagur mannréttinda.

Samþykkt mannréttindayfirlýsingarinnar var vitaskuld mikilvæg þótt hún væri ekki þjóðréttarlega bindandi. Hún ruddi hins vegar brautina.

Mannréttindayfirlýsingin
Mannréttindayfirlýsingin á frönsku, rússnesku, ensku, spænsku og kínversku frá 1948.

Guðmundur Alfreðsson starfaði um árabil við mannréttindamál hjá Sameinuðu þjóðunum og er fyrrverandi prófessor í þjóðarrétti og mannréttindum.

„Það er rétt, yfirlýsingin er almenn og nær yfir allt mannréttindasviðið. Hún opnar hliðið og byrjar að ryðja brautina. Síðan þá hafa verið samþykkt hundruð sáttmála og annarra yfirlýsinga.“

Sáttmáli átti að fylgja á eftir

Upphaflega átti mannréttindasáttmáli að sigla í kjölfar yfirlýsingarinnar. En hátt í tuttugu ár liðu þar til sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og pólitísk réttindi var samþykktur og svo sáttmáli um efnahagsleg og félagsleg réttindi.

„Strax eftir að yfirlýsingin var samin, var farið í þá vinnu, að skrifa bindandi sáttmála. Upphaflega var hugmyndin að samþykkja einn mannréttindasáttmála,“ segir Kári Hólmar Ragnarsson lektor við Háskóla Íslands. „Það er reynt en síðan verður lendingin sú að það eru skrifaðir tveir.

Mannréttindayfirlýsingin
Eleanor D. Roosevelt, frá Bandaríkjunum, (ekkja Franklin Bandaríkjaforseta) formaður mannréttindanefndarinnar og Henri Laugier framkvæmdastjóri félagsmála hjá SÞ á fyrsta fundi um yfirlýsinguna 9.júní 1947. Mynd: UN Photo.

Samningurinn um borgarleg og pólitísk réttindi annars vegar og samningurinn um efnahagsleg-, félagsleg- og menningarleg réttindi hins vegar. Það er kannski vert að taka það fram að Mannréttindayfirlýsingin hefur kannski meiri stöðu í dag en bara einhver svona óbindandi yfirlýsing. Bæði sem grundvöllur allra þessara sáttmála, sem eru mjög víða fullgiltir, af mjög mörgum ríkjum, hefur hún ákveðna stöðu, og hún endurspeglar líka venjurétt og er því bendandi, eða reglurnar í henni eru taldar bindandi, þó þær séu ekki skrifaðar sem bindandi. Svo má kannski deila um hvað nákvæmlega í henni er bindandi.“

Skjöl fanga úr "Gúlaginu" fangabúðum Sovétstjórnarinnar
Skjöl fanga úr „Gúlaginu“ fangabúðum Sovétstjórnarinnar. Mynd: wikimedia/Dmitry Borko/Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0 International

Sovétríkin stóðu vörð um fullveldi sitt

Helsta stefnumið Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra þegar mannréttindayfirlýsingin var samin var andstaða við hvers kyns skerðingu fullveldis, það er að segja að tryggja að hún auðveldaði ekki öðrum ríkjum eða alþjóðasamfélaginu, að hlutast til um mannréttindi, sem þau töldu enn innanríkismál. Slíkt breyttist ekki fyrr en með Helsinkisáttmálanum um miðjan áttunda áratuginn, en þá fyrst viðurkenndu Sovétríkin og fylgiríki þeirra Mannréttindayfirlýsinguna formlega.

„Já nákvæmlega. Þeir vilja fara í Öryggisráðið, en ganga ekki í aðrar alþjóðastofnanir í þessu stofnanaumhverfi, sem er að vaxa mjög mikið undir lok fimmta áratugarins og byrjun þess sjötta. Það er ekki fyrr en eftir að Stalín deyr að þeir koma inn í alþjóðasamstarf af meiri krafti,“ segir Rósa Magnúsdóttir prófessor í sagnfræði.

Dauði Stalíns 1953 markaði þáttaskil
Dauði Stalíns 1953 markaði þáttaskil. Mynd:Boris Artzybasheff/Wikimedia

 -Og við samningu Mannréttindayfirlýsingarinnar, er kannski aðalatriðið að þau geti verið í friði?

„Að þau geti verið í friði, þau eru íhlutunarsinnar og vilja halda þessari forræðishyggju til haga.“

Valur Ingimundarson, prófessor í sögu tekur í sama streng.

„Það sem þau óttuðust helst, var að Vesturveldin myndu leggja áherslu á mannréttindabrot í Sovétríkjunum, það er að segja að þau myndu ganga gegn ákvæði í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna um fullveldi ríkja.“

Sovétmenn svöruðu gagnrýni á mannréttindabrot fullum hálsi og bentu á stöðu svartra í Bandaríkjunum.
Maður drekkur úr brunni sem er einungis ætlaður blökkumönnum í Norður Karólínu í Bandaríkjunum 1938. Mynd: John Vachon/Wikimedia.

Sovétríkin ekki ein

En Sovétríkin voru ekkert ein í þeirri afstöðu að vilja gæta fullveldis síns. Eftir því sem aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hefur fjölgað hefur Bandaríkjunum þótt þau vera sífellt meira ein á báti og að sama skapi verið æ tregari í taumi við að samþykkja hvers kyns yfirþjóðlegt vald í mannréttindamálum, sem og öðrum málum, og hafa til dæmis ekki fullgilt sáttmálann um efnahagsleg og félagsleg réttindi.

„Þetta á ekki að þurfa að koma á óvart,“ segir Guðmundur Alfreðsson fyrrverandi prófessor. „Fullveldi, þetta góða íslenska orð: þetta er fullt vald. Stjórnvöld og ráðandi stétir gátu gert það sem þeim sýndist og engin takmörk á því. Mannréttindareglurnar, sérstaklega eftir að búið er að leiða þær í lög, þær takmarka þetta vald stjórnvalda. Þeim eru sett takmörk, hvað þau mega aðhafast. Það á ekki að koma neinum á óvart að stjórnvöld í mörgum löndum eru óánægð með þetta fyrirkomulag og sjá stundum eftir því að hafa undirgengist þessar reglur.“

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna heldur á hauskúpu.
Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna rannsakar mannréttindabrot í lýðveldinu Kongó. Mynd. UN Photo/Martine Perret

Eftirlit aukist

Í umræðum um mannréttindi vaknar svo alltaf spurningin um hvort yfirlýsingar og samningar séu orðin tóm, ef ekki eru ákvæði um hvernig hrinda beri þeim í framkvæmd.

„Hlutur mannréttinda í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur aukist mjög mikið og það er miklu meira eftirlit því að það sé framkvæmt, sem í þessu mannréttindareglum“, segir Guðmundur Alfreðsson. „Það hefur aukist, bæði með samninganefndum og eftilitsfulltrúum, sem ferðast um heiminn og skila skýrslum. Á hinn bóginn má líka segja að það sé ekki alltaf farið eftir þessum tilmælum samtakanna, og það er víða brotið á eim. Ef það er litið til lengri tíma og skoðað tímabilið frá 1948 til dagsins í dag þá hafa orðið framfarir -heilmiklar breytingar til hins betra og við vonum að það haldi áfram í þá átt, þótt það séu öðru hverju skref aftur á bak.“

Þetta er þriðji hluti greina um Mannréttindayfirlýsinguna í tilefni 75 ára afmælis hennar, sjá fyrri greinar hér og hér.

Sjá Mannréttindayfirlýsinguna hér. 

Sjá nánar hér  hér. 

75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar sjá hér.