Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn aðstoðar Ísland, Ungverjaland og Úkraínu

0
675

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) tilkynnti í gær um að Ungverjalandi og Úkraínu yrðu veitt lán til að styrkja fjármálakerfi landanna. Búist er við að Úkraína fái allt að 16.5 milljarða Bandaríkjadala. 

Tilkynning IMF kemur í kjölfar samkomulags um lánveitingar til Íslands á föstudag að andvirði rúmlega tveggja milljarða Bandaríkjadala.
Dominique Strauss-Kahn, forstjóri IMF sat á föstudag fund oddvita stofnana Sameinuðu þjóðanna og tengdra stofnana í New York undir forystu Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Þar var rætt um alþjóðlegu fjármálakreppuna, sérstaklega áhrif hennar á fátækasta fólk heims. 
“Kreppan mun hafa áhrif á öll lönd hvort heldur sem er þróuð ríki eða þróunarlönd. Hún mun hafa alvarlegustu áhrifin á þá sem síst skyldi; fátækt fólk í þróunarríkjum sem ber enga ábyrgð á kreppunni,” sögðu oddvitarnir í yfirlýsingu sinni.


Bretton Woods stofnanirnar svokölluðu, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn, teljast til Sameinuðu þjóða fjölskyldunnar og funda forstjórar þeirra reglubundið með forstjórum stofnana Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdastjóri samtakanna.

Framkvæmdastjóri SÞ sagði á fundinum að nauðsynlegt væri að grípa til “róttækra ráðstafana” til að leysa fjármálakreppuna og hugsanlega yrði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Seðlabankar heimsins að koma upp umfangsmiklum lánalínum til þess að bankar í fátækum ríkjum hefðu nauðsynlegt fé.
Eftir fundinn ítrekaði Ban afstöðu Sameinuðu þjóðanna til kreppunnar og þarfa þróunarríkja. 
“Við vorum öll sammála um að Sameinuðu þjóðirnar beri sérstaka ábyrgð sem er að vernda þá sem fátækastir eru og standa höllum fæti…Við lýstum fullum stuðningi okkar við málstað efnahagslegrar framþróunar og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að takast á við afleiðingar þessarar alþjóðlegu kreppu,” sagði hann. 
Ban Ki-moon mun sitja fund veraldarleiðtoga í Washington 15. nóvember þar sem leitað verður svara við vandanum.