Forysta og samstarf mikilvægara en nokkru sinni fyrr, segir Ban

0
558

Skýr forysta og samvinna þjóða eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr til að glíma við þau fjölmörgu vandamál sem blasa við heiminum í dag; hvort heldur sem er fæðu óöryggi og loftslagsbreytingar eða fjármálakreppuna.

Þetta segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á degi Sameinuðu þjóðanna.

“Þetta ár gæti reynst örlagár í sögu Sameinuðu þjóðanna,” segir Ban á sextugasta og þriðja afmælisári samtakanna. 
“Við erum nú komin hálfa leið í baráttu okkar við að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þroún,” sagði hann og vitnaði til yfirlýsingar leiðtoga heims um að helminga skyldi sárafátækt í heiminum og fleiri óáran fyrir árið 2015.  
“Við sjáum betur nú en nokkru sinni fyrr að ógnir tuttugustu og fyrstu aldarinnar eira engum. Loftslagsbreytingar, útbreiðsla faraldra og ógnvænlegra vopna og hryðjuverk virða engin landamæri.”
Ban minnti á að mörg ríki eru ekki á áætlun í viðleitni sinni við að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þroun á tilsettum tíma. Hann boðaði fulltrúa ríkisstjórna, einkageirans og almannasamtaka til fundar í New York í síðasta mánuði til að takast á við sannkallað "neyðarástand í þróunarmálum." Uppskeran voru fyrirheit um hærri framlög en dæmi eru um til að koma fátækasta fólki veraldar til hjálpar. 

Ban ávarpar fund um Gereyðingarvopn á degi Sameinuðu þjóðanna. Tveir friðarverðlaunahafar Nóbels, Múhameð El Baradei, forstjóri Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar og Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna eru með honum i pallborði.

Framkvæmdastjórinn lét einnig í ljós áhyggjur af áhrifum fjármálakreppunnar en þau voru til umræðu á fundi framkvæmdstjórans með fimm virtum hagfræðingum og forstjóra Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP).  
Umræðurnar snérust um “ástand alþjóðlegra efnahagsmála og sér í lagi, þær áskoranir sem blasa við þróunarríkjum vegna fjármálakreppunnar og hvaða afleiðingar þær geta haft, “ sagði í yfirlýsingu talsmanns Bans. 
Nancy Birdsall frá Centre for Global Development, Dani Rodrik og Kenneth Rogoff frá Harvard háskóla og Jeffrey Sachs og Joseph Stiglitz frá Columbia háskóla tóku þátt í umræðunum. Ban lagði áherslu á að haldið skyldi fast í langtíma stefnumörkun á borð við Þúsaldarmarkmiðin og baráttuna gegn sárafátækt auk baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.  
 
“Við skulum halda áfram á þeirri leið sem mörkuð hefur verið,” sagði Ban. “Við megum engan tíma missa. Á degi Sameinuðu þjóðanna hvet ég alla samstarfsaðilja og leiðtoga til að leggja sitt af mörkum til að standa við loforðin.”