Apabóla: varað við fordómum gegn hinsegin fólki og Afríkubúum

0
520
Apabóla.
Apabóla.

Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir áhyggjum af því að fréttaflutningur af svokallaðri apabólu (Monkeypox) kunni í sumum tilefllum að ýta undir fordóma gegn hinsegin fólki og Afríkubúum.

 Stofnunin, UNAIDS, segir í yfirlýsingu að í orðavali og myndanotkun í fréttum og skoðanaskiptum hafi oft og tíðum verið gripið til staðalímynda af jafnt LGBTI og afrísku fólki. Slíkt ýti undir homma- og kynþáttahatur.

Smánun grefur undan lýðheilsu

Apabóla er sjúkdómur sem farinn er að ógna lýðheilsu, ekki aðeins í vestur og mið-Afríku, þar sem hann er upprunninn, heldur um allan heim. Hann hefur nú greinst í fjölmörgum Vestur-Evrópuríkjum, svo sem Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Ítalíu, Portúgal, Spáni og Þýskalandi.

Alls hafði Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni borist tilkynningar um sjúkdóminn frá 12 aðildarríkjum, þar sem hann er ekki landlægur.

Umtalsvert stór hluti tilfella hefur greinst hjá sam- og tvíkynhneigðum og öðrum körlum sem stunda kynlíf með kynbræðrum sínum.

UNAIDS, Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna, segir í yfirlýsingu að mikilvægt sé að læra af reynslu baráttunnar gegn alnæmi. Þar hafi smánun og ásakanir gegn ákveðnum hópum grafið undan viðbrögðum á sviði lýðheilsu.

„Að leita blóraböggla og smána grefur undan trausti og getunni til að bregðast við farsótt af þessu tagi “segir Matthew Kavanagh starfandi varaforstjóri UNAIDS. „Reynslan sýnir okkur að smánunar-orðræða getur ótrúlega hratt hindrað viðbrögð, sem byggjast á staðreyndum. Slíkt vekur ótta, fælir fólk frá heilsugæslu, og kemur í veg fyrir að tilfelli séu greind, auk þess að ýta undir tilgangslausar refsingar.“

Berst við nána snertingu

Apabóla berst til manna við nána snertingu við sýkta manneskju eða dýr, eða efni sem þakið er veirum. Það getur borist við beina snertingu við blóð, líkamsvessa eða sár á hörundi eða slímhúð sýkts dýrs.

Apabóla er veirusýking sem berst frá dýrum til manna. Einkennin eru svipuð og hjá bólusóttar-sjúklingum, en þó ekki eins slæm. Sjúkdómurinn er algengastur í Mið- og Vestur-Afríku, oft í nágrenni regnskóga, en hefur orðið vart í vaxandi mæli í þéttbýli. Hann berst með ýmsum nagdýrum og prímötum.

Bólusóttar-bólusetning gegn apabólu hefur verið reynd og virkar 85% gegn henni. Þá getur slík fyrri bólusetning dregið úr alvarleika veikinda.