Argentískar mæður harma hvarf barna sinna

0
41
Ungir jafnt sem aldnir taka þátt í vikulegum aðgerðum Mæðranna frá Maí-torgi.
Ungir jafnt sem aldnir taka þátt í vikulegum aðgerðum Mæðranna frá Maí-torgi. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Alþjóðlegur dagur þvingaðs brottnáms 30.ágúst. Á hverjum fimmtudegi stundvíslega klukkan 3.30 síðdegis safnast hinar svonefndu „Mæðurnar frá Maí-torgi” og fylgismenn þeirra saman á samnefndu torgi í hjarta Buenos Aires, höfuðborg Argentínu.

Þær ganga í hringi í kringum Maí-píramídann andspænis Casa Rosada – Bleika húsinu -forsetahöll Argentínu. Mæðurnar þekkjast á hvítu hárklútunum, sem eiga að minna á barnableyjur. Frá 1977 hafa þær komið saman vikulega til að krefjast þess að yfirvöld komist til botns í því hvað varð um börnin þeirra sem hurfu á valdaárum herforingjastjórnarinnar í Argentínu. 30.ágúst er Alþjóðlegur dagur þvingaðs brottnáms.

Á hverjum fimmtudagi klukkan hálf fjögur er safnast saman á Maí-torgi í Buenos Aires. Mynd: Árni Snævarr
Á hverjum fimmtudagi klukkan hálf fjögur er safnast saman á Maí-torgi í Buenos Aires. Mynd: Árni Snævarr

Herinn rændi völdum í Argentínu 24.mars 1976 og við tók eitt blóðugasta tímabil í argentískri sögu, sem lauk ekki fyrr en 1983.

Herstjórnin lýsti yfir „endurskipulagningu“ þjóðarinnar (Proceso de Reorganización Nacional). Beitt var harkalegum aðferðum til að kveða niður andóf. Þúsundum manna var rænt, og sættu pyntingum,og geðþótta-aftökum. Herforingjastjórnin varð einkum alræmd fyrir kerfisbundin mannrán – sem kölluð hafa verið „þvingað brottnám.” Fólki var rænt á heimilum sínu, vinnustað eða á götum úti. Yfirvöld þögðu oftast þunnu hljóði um örlög fólksins og fjölskyldur lifðu í algjörri óvissu.

Mæðurnar eru margar orðnar háaldraðar, enda var herforingjastjórnin við völd 1976-1983. Mynd: Árni Snævarr
Mæðurnar eru margar orðnar háaldraðar, enda var herforingjastjórnin við völd 1976-1983. Mynd: Árni Snævarr

 250 börn fundist

Börn voru iðulega tekin af foreldrum með valdi og komið fyrir hjá fjölskyldum sem voru í náðinni hjá herstjórninni.

Samtökum Mæðranna frá maí-torginu hefur tekist að hafa upp á 256 horfnum börnum. Þau höfðu verið ættleidd stuttu eftir að mæður þeirra þeirra fæddu þau í fangelsi eða fangabúðum og voru síðan oft látnar hverfa.

Stundum urðu mæðurnar eða ömmurnar fyrir vonbrigðum þegar (barna)börnin, nú komin á fullorðinsaldur, vildu ekkert vita af sögu sinni eða neituðu að gefa DNA-sýni.

Mæðurnar heiðraðar

 Ban Ki-moon, þá aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, heiðraði Mæðurnar í heimsókn til Argentínu í ágúst 2016. Hann lýsti árinu 1976 sem „hræðilegu ári”, þegar hann heimsótti minningargarðinn um fórnarlömb herforingjastjórnarinnar. Þar eru skilti með nöfnum fórnarlambanna og ártal dauða eða hvarfs þeirra og kemur 1976 oft við sögu.

Ban-ki Moon sveipar um sig hvítum höfuðklút, sem er einkennismerki Mæðranna frá maí-torgi.
Ban-ki Moon sveipar um sig hvítum höfuðklút, sem er einkennismerki Mæðranna frá maí-torgi. Mynd: UN Photo/Evan Schneider

 Ban Ki-moon hitti forsvarsmenn mannréttindasamtaka að máli, þar á meðal Mæðurnar frá Maí-torgi.

Árið 1992 voru allir félagar í Samtökum mæðranna sæmdir Sakharov-mannréttindaverðlaununum. Þá fengu samtökin Friðarmenntaverðlaun Sameinuðu þjóðanna 1999. Loks fékk forsprakki þeirra Estella Barnes de Carlotto Mannréttindaverðlaun Sameinuðu þjóðanna 2003.

Ein mæðranna á fundi með Ban-ki Moon.
Ein mæðranna á fundi með Ban-ki Moon. Mynd: UN Photo/Evan Schneider

Hundruð þúsunda horfinna

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýsti áhyggjum sínum af auknum fjölda þvingaðs brottnáms í ýmsum heimshlutum, þar á meðal handtökum og mannránum. Í ályktun sinni 21.desember 2010 samþykkti Allsherjarþingið að frá og með 2011 skyldi Alþjóðlegur dagur fórnarlamba þvingaðs brottnáms haldinn 30.ágúst ár hvert. Hundruð þúsunda manna hafa horfið í átökum í að minnsta kosti 85 ríkjum í heiminum.