Binda ber enda á refsileysi fyrir glæpi gegn blaðamönnum

0
528
Alþjóðlegur dagur til upprætingar refsileysis fyrir glæpi gegn blaðamönnum.
Mynd: UNESCO.

Á síðasta ári voru sextíu og tveir blaðamenn í heiminum drepnir fyrir það eitt að sinna starfi sínu. Þetta kemur fram í úttekt UNESCO, Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í dag 2.nóvember er Alþjóðlegur dagur til upprætingar refsileysis fyrir glæpi gegn blaðamönnum.

Margir blaðamannanna týndu lífi þegar þeir fjölluðu um átök. En fjöldi þeirra sem látast í starfi utan átakasvæða hefur aukist undanfarin ár. Blaðamenn eru oft og tíðum í mikilli hættu ef þeir fjalla um spillingu, mansal, mannréttindabrot eða umhverfisspjöll að sögn António Guterres aðalframkvæmdatjóra Sameinuðu þjóðanna.

Á sama tíma er refsileysi við því að myrða blaðamenn mjög algengt. Að mati UNESCO sleppa níu af hverjum tíu þeirra, sem myrða blaðamenn, við refsingu.

Þá sæta blaðamenn ýmsu öðru harðræði. Þar má nefna mannrán, pyntingar og frelsisviptingu. Einnig hatursáróður og áreiti einkum á stafrænum vettvangi. Konur í blaðamannastétt eiga sérstaklega á hættu að verða fyrir árásum á netinu.

Grafið undan lýðræði og réttarríki

Alþjóðlegur dagur til upprætingar refsileysi fyrir glæpi geng blaðamönnum
Veggmynd í Kabúl höfuðborg Afganistans til minningar um þá 35 blaðamenn sem drepnir hafa verið í landinu frá 2001. Mynd: UNAMA / Fardin Waezi

„Brot gegn blaðamönnum íþyngja samfélaginu í heild því þau koma í veg fyrir að teknar séu eins vel upplýstar ákvarðanir og mögulegt er,“ segir António Guterres í ávarpi á Alþjóðlega deginum til að uppræta refsileysi fyrir glæpi gegn blaðamönnum.

COVID-19 faraldurinn og upplýsingaóreiðan sem honum hefur fylgt hefur sýnt og sannað að aðgangur að staðreyndum og vísindum getur snúist um líf og dauða. Þegar aðgangi að upplýsingum er ógnað er verið að grafa undan lýðræði og réttarríki.

„Ég hvet aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagið tl að sýna samstöðu með blaðamönnum um allan heim. Okkur ber að virkja þann pólitíska vilja sem þarf til að rannsaka og hegna fyrir brot gegn blaðamönnum og starfsmönnum,” segir aðalframkvæmdastjórinn í ávarpi sínu.