COP26: Hingað og ekki lengra, segir Guterres

0
675
COP26
António Guterres ávarpar COP26

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að kolefnisfíkn mannkynsins hafi ýtt því fram á barm hengiflugs. „Við stöndum frammi fyrir afdráttarlausu vali: annað hvort stöðvum við þetta eða það stöðvar okkur. Það er kominn tími til að segja hingað og ekki lengra. Hættum að drepa okkur á kolefni. Hættum að umgangast náttúruna eins og salerni,” sagði Guterres í opnunarræðu á COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í dag.

Guterres sagði að ef skuldbindingar ríkja við lok ráðstefnunnar væru ófullnægjandi yrði að endurskoða á ný loftslagsáætlanir og stefnumótun hvers ríkis. „Ekki á fimm ára fresti. Á hverju ári, þar til við náum takmarkinu um hámarks 1.5 gráðu hlýnun jarðar.  Þar til niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti hefur verið hætt. Þar til kolefni er verðlag. Og þar til kolanotkun er hætt.”

Aðalframkvæmdastjórinn segir að nýlegar yfirlýsingar um loftslagsaðgerðir gætu vakið vonir um að vð séu á réttri leið. „Það er blekking. Síðasta skýrslan um landsmarkmið ríkja sýnir að heimurinn hafi verið dæmdur til stórskaðlegrar 2.7 gráðu hlýnunar.”

Árangur til að byggja á

Á hinn bóginn benti aðalframkvæmdastjórinn einnig á „árangur sem byggja má  á.”  Hann nefndi sérstaklega að víða hefði verið tekið fyrir alþjóðlega fjármögnun kolanotkunar. Meir en 700 borgir hefðu tekið forystu um kolefnishlutleysi og að Nettó-núll bandalag eignastýrenda hefðu nú 10 milljón milljarða dala sjóði til ráðstöfunar og væru aflvaki breytinga.

„Fjöldi ríkja hefur kynnt trúðverðugar skuldbindingar um nettó-núll losun fyrir miðja öldina….Loftslagsherinn undir forystu unga fólksins er óstöðvandi. Hann er stærri, hann er háværari. Og ég er sannfærður um að hann sé ekki á förum. Ég stend með honum.“

Þessu til viðbótar lýsti  aðalframkvæmdastjórinn áhyggjum sínum af því sem hann kallaði „skorti á trúverðugleika“ og „ringulreið“ yfir niðurskurði losunar og nettó-núll markmiðum þar sem ólík merking væri lögð í hugtök og ólíkir mælikvarðar notaðir.

„Af þessum sökum… tilkynni ég nú um stofnun sérfræðingahóps til að koma með tillögur um skýra staðla til að mæla og meta nettó-núll skuldbindingar aðila utan vébanda ríkja.“

Að halda 1.5° takmarkinu á lífi

Í lok ræðu sinnar varaði Guterres alvarlega við því heimurinn stæði frammi fyrir loftslagshamförum.

„Við verðum að halda lífí í því takmarki að halda hlýnun innan við 1.5 gráðu á Celsius. Til þess að svo megi verða verður að auka metnað til að milda áhrif og grípa til tafarlausra og áþreifanlegra aðgerða til að draga úr losun um 45% fyrir 2030…Við þurfum hámarks-metnað af hálfu allra ríkja og á öllum vígstöðvum til að Glasgow-fundurinn teljist árangursríkur,“ sagði Guterres.

Sjá einnig um COP26 hér og hér