Börn í flóttamannabúðum í Grindavík

0
481

Börn á flótta 1 350x239

24.febrúar 2014. UNICEF á Íslandi hefur frumsýnt auglýsingu sem sýnir íslensk börn í flóttamannabúðum.

Íslenska auglýsingastofan og True North gáfu samtökunum auglýsinguna. Auglýsingin markar upphaf að átaki UNICEF sem miðar að því að vekja athygli á ömurlegum aðstæðum flóttabarna víða um heim. Til að skapa réttar aðstæður voru flóttamannabúðir settar upp við Sólbrekku við Grindavík.
Með framtaki sínu vill UNICEF benda á að börn á flótta erlendis og börn í nánasta umhverfi okkar eru eins. Flóttabörn takast hins vegar á við aðstæður sem ekkert barn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Markmið UNICEF er að varpa ljósi á að börn á flótta þurfa öryggi og skjól – rétt eins og öll önnur börn. Þau eiga að fá að vera börn. Tilgangurinner  að gefa fólki tækifæri til að rétta þeim

Með því að senda sms-ið BARN í númerið 1900 (1900 krónur) er hægt að styrkja baráttu UNICEF fyrir velferð barna á flótta. 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Samtökin berjast fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinna bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. Áhersla er lögð á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.
UNICEF veitir börnum á flótta lífsnauðsynlega hjálp, svo sem heilsugæslu, hreint vatn, næringu og sálrænan stuðning.
„Þetta eru börn sem eru á flótta vegna stríðsátaka, náttúruhamfara eða annarra hörmunga. Börn sem til dæmis eru frá Sýrlandi, Suður-Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu, Filippseyjum, Afganistan og Malí – svo fáeinir staðir séu nefndir. Málefnið er því ákaflega þarft,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
„Við erum öllum þeim fjölmörgu sem komu að auglýsingunni hjartanlega þakklát fyrir framlag sitt. Það er einstakt að verða vitni að slíkum samhug og ómetanlegt að fá jafnumfangsmikið og metnaðarfullt verkefni gefins. Allir voru boðnir og búnir að leggja okkur lið. Til dæmis talar leikarinn Ólafur Darri Ólafsson inn á auglýsinguna og Emilíana Torrini útsetur og syngur lagið sem hljómar undir. Það er von okkar að framtakið hvetji almenning hér á landi til að leggja sitt af mörkum við að gera líf barna á flótta bærilegra.“

Framlögin sem safnast nýtast til að aðstoða börn sem þurfa sárlega á öryggi og vernd að halda í kjölfar átaka heima fyrir og á svæðum þar sem flóttamannavandi er mikill. UNICEF veitir börnum í slíkum aðstæðum lífsnauðsynlega hjálp, svo sem heilsugæslu, hreint vatn, næringu og sálrænan stuðning.

Augljóst dæmi um stað þar sem afar mörg börn eru á flótta er Sýrland. Framlögin sem safnast hér á landi munu meðal annars hjálpa börnum frá Sýrlandi sem ýmist eru á vergangi innanlands eða flúin yfir til nágrannaríkjanna. Einnig er mikil þörf fyrir aðstoð við börn í Mið-Afríkulýðveldinu og Suður-Súdan. Þessum börnum fjölgar dag frá degi og mikilvægt er að koma þeim til aðstoðar.

Sjá nánar hér og hér og auglýsinguna má sjá hér
Ljósmynd: UNICEF© Gassi