Prófraun loftslagsins í Glasgow  

0
570
COP26

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sendir leiðtogum ríkja heims alvarleg skilaboð í nýrri grein sem birt er í dagblöðum víða um heim. Hún birtist í aðdraganda COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, meðal annars í Fréttablaðinu.

Prófraun loftslagsins í Glasgow  

-eftir António Guterres

Alþjóðlegur dagur kvenna
António Guterres

Loftslagsváin felur í sér rauða auðvörun fyrir mannkynið.

Veraldarleiðtogar koma saman til fundar á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem gengur undir nafninu COP26, í Glasgow.

Aðgerðir þeirra eða aðgerðaleysi verða til marks um hve alvarlega þeir taka því neyðarástandi sem blasir við jörðinni.

Trauðla verður litið framhjá aðvörunarmerkjum. Hitamet eru hvarvetna slegin. Fjölbreytni lífríkisins minnkar stöðugt. Úthöfin hitna, súrna og fyllast af plasti. Ef fram fer sem horfir veður stór hluti plánetunnar óbyggilegur við aldarlok.

Og hið virta vísindarit The Lancet hefur nýverið sagt að loftslagsbreytingar muni skipta sköpum um heilbrigði fólks á næstu árum. Loftslagskreppan hefur í för með sér víðtækt hungur, öndunarfærasjúkdóma, mannskæðar hamfarir og útbreiðslu smitsjúkdóma sem kunna að vera skeinuhættari en COVID-19.

Núverandi fyrirheit ekki nóg

Þrátt fyrir háværar hringingar viðvörunarbjallna færa nýjustu skýrslur Sameinuðu þjóðanna okkur heim sanninn um að aðgerðir ríkisstjórna nægi ekki til þess að mæta hinum brýna vanda.

Ástæða er til að fagna nýjum yfirlýsingum um loftslagsaðgerðir og þær skipta máli. En þrátt fyrir þær er útlit fyrir ógnvænlega hitaukningu í heiminum eða vel rúmlega 2 gráður á Celsius.

Þetta er langt umfram 1.5 gráðu á Celsius- markmiðið sem ákveðið var í Parísarsamningnum. Það voru þau sársaukamörk sem vísindamenn höfðu reiknað út sem einu færa leiðina fyrir heim okkar.

Hægt að ná markinu

Það er sannarlega hægt að ná þessu marki.

Ef við drögum úr losun í heiminum um 45% miðað við 2010 á þessum áratug.

Ef við náum nettó-núll markinu í heiminum fyrir 2050.

Og ef veraldarleiðtogar mæta til leiks í Glasgow með djörf, metnaðarfull og sannreynanleg markmið fyrir 2030 og nýja og áþreifanlega stefnumörkun til að snúa við þessum hamförum.

Leiðtogum G20 hópsins ber – sérstaklega- að standa vaktina.

Mannlegur harmleikur í augsýn

Tími diplómatísks kurteisishjals er liðinn.

Ef ríkisstjórnir – sérstaklega þær í G20 hópnum – standa ekki undir nafni og taka að sér forystu, stefnum við óðfluga að miklum mannlegum þjáningum.

En öllum ríkjum ber að skilja að tími þróunar sem byggir á bruna kolefnis er dauðadómur yfir efnahagnum og plánetunni okkar.

Við þurfum á kolefnisnauðu hagkerfi að halda nú þegar, í öllum geirum og í hverju landi. Við þurfum að beina niðurgreiðslum frá jarðefnaeldnseyti og til endurnýjanlegrar orku og skattleggja mengun, ekki fólk.

Og hætta ber kolanotkun skref fyrir skref. Slíkt ber að gera fyrir 2030 í OECD ríkjunum og fyrir 2040 alls staðar annars staðar.

Sífellt fleiri ríkisstjórnir hafa heitið því að hætta fjármögnun kola. Brýnt er að einkageirinn geri slíkt hið sama.

Ábyrgð fyrirtækja og almennings

Almenningur telur réttilega að ríkisstjórnum beri að taka forystuna. En við berum öll ábyrgð á því að tryggja sameiginlega framtíð okkar.

Fyrirtæki þurfa að minnka loftslagsfótspor sitt. Starf þeirra og fjárflæði þurfa að taka mið af nettó-núll framtíð. Engar afsakanir eru gildar lengur, enginn grænþvottur ásættanlegur.

Einstaklingar hvarvetna þurfa að gera betur, taka ábyrgar ákvarðanir um hvað þeir leggja sér til munns, hvernig þeir ferðast og hvað þeir kaupa.

Og ungt fólk og baráttufólk fyrir loftslaginu verða að halda áfram starfi sínu. Þeim ber að halda áfram að krefja leiðtoga sína um aðgerðir og láta þá standa reikningsskil.

Við þurfum á alheims-samstöðu að halda í hvívetna til þess að hjálpa öllum ríkjum í þessum umskiptum. Þróunarríki sligast undan skuldum og lausafjárskorti. Þau þurfa á stuðningi okkar að halda.

Opinberum og milliríkja þróunarbönkum ber að auka útlán til loftslagsmála og efla aðgerðir sínar í þágu umbreytingar ríkja í átt til nettó-núll, þolgóðra hagkerfa. Brýnt er að þróuð ríki standi við skuldbindingar sínar um að verja ekki minna en 100 milljörðum Bandaríkjadala árlega í loftslagsfjármögnun í þróunarríkjum.

Aðeins ein leið er fær

Fjárgjöfum og milliríkja þróunarbönkum ber að verja að minnsta kosti helmingi loftslagsfjármögnunar til aðlögunar og þolgæðiaukningar.

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar fyrir 76 árum til að mæta mestu ógnunum sem mannkynið stóð frammi fyrir. En sjaldan hefur tilveru okkar verið ógnað jafn alvarlega og nú. Ekki aðeins tilveru okkar heldur einnig komandi kynslóðum.

Það er aðeins ein leið fær. Eina lífvænlega lausnin fyrir mannkynið er að hiti aukist ekki meir en 1.5 gráða á Celsius.

Leiðtogarnir verða að vinna verk sitt í Glasgow, áður en það er of seint.

-António Guterres er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.