Dagur hjálparstarfsmanna: Loftslagsbreytingar í brennidepli

0
722
Hjálparstarfsmenn loftslagsbreytingar
Mynd: OCHA

Á Alþjóðlegum degi helguðum hjálparstarfsmönnum  heiðrum við þá sem vinna við að koma öðrum til aðstoðar og jafnvel hætta lífi sínu. Á þessu ári beina Sameinuðu þjóðirnar athygli sinni að nauðsyn þess að grípa til þýðingarmikilla loftslagsaðgerða til að forða berskjaldaðasta fólki heims frá hörmungum.

19.ágúst 2003 létust 22 hjálparstarfsmenn í hryðjuverkaárás á Canal hótelið í Bagdad, sem hýsti starfsemi Sameinuðu þjóðanna. Á meðal hinna látnu var Sergio Vieira de Mello sérstakur fulltrúi aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Írak. Fimm árum síðar  samþykkti Alllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að 19.ágúst skyldi vera Alþjóðlegur dagur mannúðarstarfsmanna (humanitarian) eða hjálparstarfsmanna eins og það er oftast kallað á íslensku.

Mynd: Luis Villasmil-Unsplash

Mannúðaraðstoð byggir á fjórum grundvallarsjónarmiðum – mannúð, óhlutdrægni, , hlutleysi og sjálfstæði. Þessi dagur er kjörið tækifæri til þess að beina athygli að aðstæðum og fólki sem þarf á mannúðaraðstoð að halda. Jafnframt er ástæða til að minnast þeirras em hafa slasast eða týnt lífi við að hjálpa nauðstöddum.

Mannlegur kostnaður loftslagsvárinnar

 Þema þessa alþjóðlega dags hjálparstarfsmanna snýst um mannlegan kostnað við loftslagsvána. Tilgangurinn er að þrýsta á leiðtoga heimsins að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að hlífa berskjaldaðasta fólki heims við afleiðingum loftslagsbreytinga.

Loftslagváin veldur svo miklum usla um allan heim að mannúðarsamfélagið og fólkið í framlínunni hefur engin tök á að bregðast við.

Tíminn er að hlaupa frá milljónum af því fólki sem höllustum fæti stendur. Það er sama fólk og á minnsta sök á neyðarástandinu í loftslagsmálum en verður harðast fyrir barðinu á afleiðingunum. Milljónir manna eru nú þegar að missa heimili sín, lífsviðurværi og jafnvel líf vegna loftslagsbreytinga.

#TheHumanRace

Mynd: SadekAhmed

Í þessari viku í kringum alþjóðlega daginn 19.ágúst, standa Sameinuðu þjóðirnar fyrir átaki.

Strava er stærsti vettvangur á netinu fyrir hvers kyns hreyfingu. Sameinuðu þjóðirnar hvetja alla til að hreyfa sig og skrá viðleitni sína á strava. Það getur verið hvort heldur semer í líki sunds, hlaupa, göngu, fótbolta eða hjólreiða í samtals 100 mínútur frá 16.ágúst til 31.ágúst.. Hver slík aðgerð mun telja í því að færa leiðtogum heimsins skilboð um að aðgerða sé þörf á COP26, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í nóvember.

Allir eru hvattir til að taka þátt í aðgerðum og umræðum og fylkja sér um myllumerkið #HumanRace

Sjá ávarp António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í tilefni alþjóðlegs dags hjálparstarfsmanna : https://www.youtube.com/watch?v=mG2_79uMNtM