Dagur Sameinuðu þjóðanna – kvennafrídagur

0
172

Dagur Sameinuðu þjóðanna er haldinn hátíðlegur ár hvert 24.október. Þann dag árið 1945 gekk Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna í gildi.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna minnti á í ávarpi sínu í tilefni dagsins að samtökin hafi verið stofnuð sem vonarafl fyrir 75 árum í kjölfar mikils hildarleiks, sjálfrar síðari heimsstyrjaldarinnar.

„Í dag er það hlutverk kvenna og karla í starfsliði Sameinuðu þjóðanna að halda lífi í þessari von um allan heim. COVID-19, átök, hungur, fátækt og loftslagsváin eru til marks um að heimur okkar er langt frá því að vera fullkominn,“ sagði Guterres í ávarpi sínu

„En allt þetta sýnir líka og sannar að samstaða er okkar eini kostur.

Við þurfum að fylkja liði til að takast á við tröllauknar áskoranir og þoka Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun áfram.“

Aðalframkvæmdastjórinn lagði mikla áherslu á að hverju einasta mannsbarni bæri að fá aðgang að bóluefni gegn COVID-19 fyrr en síðar.

„Okkur ber að tryggja að allir jarðarbúar njóti réttinda og lifi við reisn, sérstaklega hinir fátækustu og þeir sem standa höllum fæti, stúlkur og konur og börn og ungt fólk,“ bætti Guterres við

Kvennafrídagurinn

Á Íslandi er dagurinn í seinni tíð þekktari sem kvennafrídagurinn. Þennan dag lögðu íslenskar konur niður vinnu árið 1975 til að minna á vinnuframlag sitt. Tengsl eru þarna á milli því kvennafrídagurinn var haldinn í tilefni af því að Allherjarþing Saminuðu þjóðanna hafði helgað þetta ár málefnum kvenna og því var ákveðið að kvennafríið bæri upp á dag samtakanna.