Eliasson: uppræta verður bannhelgi

0
472

 Jan-Eliasson

2.september 2013.  Jan Eliasson, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að aflétta verði þeirri bannhelgi sem hvíli á því að tala um salernisaðstöðu og hreinlæti.

Eliasson lét þessi orð falla í setningarræðu í dag á hinni árlegu Alþjóðlegu vatnsviku í Stokkhólmi.

 “Við verðum að halda áfram að brjóta tabú á bak aftur. Rétt eins og ekki mátti minnast á salerni fyrir nokkrum árum. Við þurfum að innleiða tal um að ganga örna sinna á víðavangi inn í tungumál stjórnmála og orðræðu diplómata,” sagði Eliasson.

Varaframkvæmdastjórinn lagði áherslu á að vatn og hreinlæti vægju þungt í baráttu við sjúkdóma og fátækt. “Þetta er lykillatriði í því að gera milljörðum manna að lifa við reisn um allan heim. Maður getur sagt að vatn sé lífið sjálft, en salernisaðstaða snýst um reisn.”

2.5 milljarðar manna búa við ófullnægjandi salernisaðstöðu eða um þriðjungur mannkyns. Um þriðjungur gengur örna sinna á almannafæri.

Í viðtölum í Stokkhólmi sagði Eliasson að það væri “hneyksli” að markmið um að auka salernisaðstöðu væru langt á eftir öðru í Þúsaldarmarkmiðunum um þróun. “Nefnd háttsettra um vatn og salernisaðstöðu leggur til að þessi atriði verði gerð að sjálfstæðu takmarki í nýjum markmiðum sem eiga að taka við eftir 2015. Ég hef mikla samúð með þessum sjónarmiðum.”

Mynd: World Water Week.