Vonbrigði að Öryggisráð taki ekki á Sýrlandi

0
481

Utanríkisráðherrar Norðurlanda 3-sept-2013

3. september 2013. Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna lýsa yfir þungum áhyggjum vegna notkunar efnavopna í Sýrlandi , fordæma beitingu slíkra vopna og leggja þunga áherslu á að brugðist verði við alþjóðlega. Í sameiginlegri yfirlýsingu að loknum fundi þeirra í Visby á Gotlandi í Svíþjóð sögðu þeir það mikil vonbrigði að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi ekki tekið á
málefnum Sýrlands.

Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna er ákall til öryggisráðsins um að það lýsi því skýrt og skorinort yfir að notkun efnavopna sé alvarlegt brot á alþjóðalögum sem beri að harma, grípa verði til viðeigandi aðgerða og þeir aðilar sem stóðu fyrir efnavopnaárás sæti ábyrgð. Þessi yfirlýsing ráðherrana hefur verið send utanrikisráðherra Ástralíu sem nú gegnir formennsku í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og verður einnig send öllum ríkjunum sem sæti eiga í ráðinu.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra segir að hinn eðlilegi ferill viðbragða við brotum af því tagi sem hér um ræðir sé að um þau sé fjallað á vettvangi dómstóla. Alþjóðasamfélagið hafi slík úrræði og því hafi Ísland stutt að öryggisráð
Sameinuðu þjóðanna vísi málefnum Sýrlands til Alþjóðasakamáladómstólsins.

„Við teljum áríðandi að öryggisráðið fjalli um niðurstöður rannsóknarteymis Sameinuðu þjóðanna, sem og aðrar upplýsingar sem geta varpað ljósi á það hver bar ábyrgð á árásinni“ segir utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra segir að einstök ríki öryggisráðsins verða jafnframt að víkja til hliðar pólitískum hagsmunum og láta íbúa Sýrlands njóta þess skjóls sem Sameinuðu þjóðirnar geta veitt og eiga að veita. „Beiting efnavopna er ólögleg aðgerð hvar og hvenær sem er og þær hörmungar sem dunið hafa yfir borgara Sýrlands verður að stöðva.“