Enn alvarleg mannréttindabrot í Myanmar

0
572

Ojea Quintana

6. ágúst 2012.  Myanmar þarf að takast á við alvarleg mannréttindabrot til að greiða fyrir  þróun í átt til lýðræðis og sátta í landinu, að mati sjálfstæðs mannréttindasérfræðings Sameinuðu þjóðanna að lokinni sex daga heimsókn hans, 30. júlí til 4. ágúst.
Tomás Ojea Quintana, sérstakur erindreki í mannréttindamálum í Myanmar sagði margt hafa færst til betri vegar, þar á meðal aukin virkni borgaralegs samfélags, stjórnmálaflokka og annara hlutaðeigandi aðila í umbótaferlinu; aukin opin umræða um mannréttindamál og viðleitni til að koma á fót réttarríki.  
Hins vegar nefndi hann einnig mörg þýðingarmikil álitaefni í mannréttindamálum, ekki síst ástandið á Rakhine-svæðinu og fangelsun starfsmanna Sameinuðu þjóðanna þar, áframhaldandi fangavist samviskufanga og ástandið á Kachin-svæðinu.
Átök á milli Búddista og Múslima í Rakhine kostuðu 78 lífið í júní auk þess sem þúsundir flúðu heimili sín.   
“Mannréttindaástandið í Rakhine er alvarlegt,” sagði Ojea Quintana sem heimsótti fólk þar sem missti hafði heimili sín og lífsviðurværi.
Í yfirlýsingu sinni hvatti sérfræðingurinn til að fram færi óháð, trúverðug rannsókn á ásökunum um alvarleg mannréttindabrot af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins í Rakhine, þar á meðal óhóflegri valdbeitingu öryggis- og lögreglusveita, handtökum af handahófi, skorti á eðlilegri málsmeðferð og beitingu pyntinga í fangelsum.
 Ojea Quintana heimsótti samviskufanga í Insein-fangelsinu og hvatti til þess að allir samviskufangar sem enn væru í haldi, yrðu skilyrðis- og tafarlaust látnir lausir.
Óháðir sérfræðingar eða sérstakir erindrekar (special rapporteurs) eru skipaðir af Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og rannsaka og skýra frá ástandi í landi eða á sérstöku sviði mannréttinda. Stöðurnar eru í heiðursskyni, sérfræðingarnir eru hvorki starfsmenn Sameinuðu þjóðanna né eru þeir launaðir fyrir störf sín.

Mynd: Tomás Ojea Quintana, sérstakur erindreki í mannréttindamálum í Myanmar. SÞ-mynd/Evan Schneider