Hiroshima aldrei aftur, segir Ban

0
581

Hiroshima

6. ágúst 2012. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti ríki heims til að útrýma þeirri ógn sem stafar af kjarnorkuvopnum í ávarpi í tilefni af því að þess er minnst að 67 ár eru liðin frá kjarnorkuárásinni á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki.

“Slík kjarnorkuárás má ekki endurtaka sig – aldrei,” sagði Ban Ki-moon í ávarpi sem Angelina Kane, yfirmaður afvopnunarmála hjá Sameinuðu þjóðunum flutti fyrir hans hönd við árlega minningarathöfn í Hiroshima. Ban lagði áherslu á að heiðra skuli minningu fórnarlamba og eftirlifenda með því að deila sögu þeirra með nýjum kynslóðum.
Yfir 400 þúsund manns létust af völdum kjarnorkuárásanna á Hiroshima 6. ágúst 1945 og Nagasaki þremur dögum síðar. “Slík vopn eiga engan lögmætan tilverurétt í okkar heimi. Útrýming þeirra er siðferðisleg skylda og nauðsyn til að vernda mannkynið,” sagði í ávarpi Ban.  
Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum vefsíðu http://www.hiroshima-nagasaki.com/  þar sem eftirlifendur segja sögur sínar. Hún er unnin í sameiningu af Skrifstofu afvopnunarmála hjá Sameinuðu þjóðunum og japanska listamanninum og leikstjóranum Shinpei Takeda og hefur að geyma 60 viðtöl við eftirlifendur sem ferðuðust til Bandaríkjanna eftir sprenginguna til að auka vitund um langtímaáhrif beitingu gereyðingavopna.