Eþíópía: Sagan gæti endurtekið sig

0
496
Ethiopia1

Ethiopia1

16. desember 2015. Meir en tíu milljónir Eþíópíubúa þurfa á brýnni mataraðstoð að halda og sá fjöldi kann að tvöfaldast innan nokkurra mánaða.

Ástæðan eru mestu þurrkar sem herjað hafa á landið í áratugi eftir tvö nánast úrkomulaus ár í röð, auk þess sem hafstraumurinn El Nino er sá öflugasti í sögunni.

Íbúar heimsins voru felmtri slegnir yfir hungursneyðinni sem varð hundruð þúsundum manna að bana í Eþíópíu fyrir nærri þrjátíu árum. Fjórir af æðstu yfirmönnum Sameinuðu þjóðanna segja að sagan þurfi ekki að endurtaka sig, ef gripið verður í taumana tímanlega.

„Við vitum hvað við eigum í vændum. Við vitum hvernig á að koma í veg fyrir það. Við þurfum einfaldlega að grípa til aðgerða nú þegar,“ skrifa Stephen O’Brien, framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, (OCHA), Antonio Guterres, forstjóri Flóttamannahjálparinnar (UNHCR),Ertharin Cousin, forstjóri Matvælaaðstoðar samtakanna (WFP), og Anthony Lake, forstjóri Barnahjálparinnar (UNICEF) í sameiginlegri kjallaragrein.

Ethiopia2Þeir segja að þótt landið standi andspænis hrikalegri vá geti Eþíópíubúar sigrast á erfiðleikunum án þess að harmleikurinn fyrir þremur áratugum endurtaki sig. Margt hafi breyst í Eþíópíu, sem státar af einna mestum efnahagslegum uppgangi allra ríkja í Afríku á undanförnum áratugum. Öryggisnet landsins er eitt hið fullkomnasta í álfunni og er gert ráð fyrir að hægt sé að veita átta milljónum fátækustu íbúanna mataraðstoð. Þá er viðnámsþróttur fjölskyldna og samfélaga til að takast á við hamfarir á borð við þurrka, hungur og verðhækkunum á mat, mun meiri en áður var.

„Þá hafa innviðir landsins, þar á meðal vegir til að flytja birgðir allt árið um kring, stórbatnað. Þetta þýðir að mun auðveldara er að koma neyðaraðstoð til nauðstaddra en var fyrir þrjátíu árum,“ skrifa embættismenn Sameinuðu þjóðanna í grein sinni.

„Það sem hefur hins vegar ekki breyttst er hið óvægna og ófyrirsjáanlega veðurfar, sem getur eins og hendi sé veifað valdið hungri í landi þar sem 80% íbúanna lifa á landbúnaði.“

Eþíópíustjórn hefur óskað eftir aðstoð og alþjóðlegar hjáparstofnanir reyna að afla fjár til aðgerða, en embættismennirnir fjórir segja að árangur hafi verið rýr enda hafa hverjar hamfarirnar rakið aðrar í heiminum að undanförnu og aldrei fleiri lent á vergangi vegna ófriðar.

„Það eru margir um hituna og á heimsmælikvarða virðist vandi Eþíópíu ekki svo brýnn. En þegar vandinn verður orðinn brýnn, kann það að vera of seint. Við megum ekki gera sömu mistök og fyrir þrjátíu árum þegar umheimurinn sniðgekk vandann alltof lengi og greip ekki til aðgerða fyrr en menn höfðu misst stjórn á ástandinu,“ skrifa forkólfar OCHA, UNHCR, WFP og UNICEF í grein sinni.

Mynd: efri mynd UNICEF, neðri mynd: Korem í Eþíópíu 9.nóvember 1984 SÞ-mynd: John Isaac.