Finnar telja sig illa svikna

0
526

Finnar

19. október 2012. Finnar urðu fyrir miklum vonbrigðum í gær þegar Finnland náði ekki kjöri til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í kosningu á Allsherjarþinginu. Ástralía og Lúxemborg urðu hlutskörpust þegar kosið var um tvö sæti sem úthlutað er til “vestrænna ríkja.” Finnar voru í framboði á vegum allra Norðurlandanna fimm.

 “Vonbrigðin voru mikil” segir stórblaðið Helsingin Sanomat. “Þegar úrslitin voru ljós sátu finnsku fulltrúarnir niðurlútir á þinginu þar sem fjölmargir fulltrúar höfðu svikið loforð sín um stuðning.” Finnar töldu sig hafa loforð 140 ríkja fyrir stuðningi.

 Ástralía náði kjöri strax í fyrstu umferð með 140 atkvæðum, Lúxemborg fékk 128 og Finnland 108. Lúxemborg þurfti aðeins að bæta við sig einu atkvæði til að fá tilskilinn meirihluta og tókst það í annari umferð en þá fékk hertogadæmið 132 atkvæði en Finnar aðeins 62.

 Fyrir fjórum árum var Ísland í framboði fyrir hönd Norðurlandanna í kjölfar hrunsins og fékk þá 87 atkvæði og fell út í fyrstu umferð en Tyrkland og Austurríki náðu kjöri. Rétt eins og Finnar töldu Íslendingar sig hafa tryggt sér stuðning um 140 ríkja.

Fimmtán ríki eiga aðild að Öryggisráðinu og eru fimm ríki kosin til tveggja ára setu í ráðinu, en fimm ríki eiga þar svo fast sæti.

Auk Ástralíu og Lúxemborgar hlutu kosningu í gær Argentína, Rúanda og Suður-Kórea.

Kjör Rúanda vakti talsvert uppnám enda komust fjölmiðlar fyrir skömmu yfir gagnrýna skýrslu Sameinuðu þjóðanna um tengsl ráðamanna þar og stuðning við uppreisnarmenn í nágrannaríkjunu Kongó.

Finnland hefur tvívegis setið í öryggisráðinu, síðla á sjöunda og níunda áratug siðustu aldar, en Lúxemborgarar setjast nú í ráðið í fyrsta skipti.

Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands lýsti miklum vonbrigðum eftir að úrslit voru kunn en sagði að starf finnskra stjórnarerindreka hefði ekki verið til einskis.

Sauli Niinistö, forseti tók í sama streng en sagði að Finnar hefðu aflað tengsla í kosningabaráttunni sem myndu nýtast í framtíðinni.

Ríkin fimm taka sæti í ráðinu um áramótin og sitja þar í tvö ár. Þau koma í stað Indlands, Kólombíu, Portúgals, Suður-Afríku og Þýskalands.

Aserbæjan, Guatemala, Marokkó, Pakistan og Togo eiga eitt ár eftir af kjörtímabili sínu. Fimm ríki eiga svo fast sæti og hafa neitunarvald en það eru sem fyrr Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland.

Samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna ber Öryggisráðið fyrst og fremst ábyrgð á friði og öryggi á alþjóðavettvangi. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru bundin af samþykktum Öryggisráðsins.

Öryggisráðið mælir einnig með skipan framkvæmdastjóra sem kosinn er á Allsherjarþinginu og sama gildir um upptöku nýrra aðildarríkja.

Mynd: Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands greiðir atkvæði í kosningunni um laus sæti í Öryggisráðinu. SÞ/Evan Schneider.