Fjarri fyrirsögnunum:  Pakistan enn í klóm flóða vegna „monsúnrigninga á sterum“

0
12
Þriðjungur Pakistans fór undir vatn í flóðunum 2022.
Þriðjungur Pakistans fór undir vatn í flóðunum 2022. Mynd: UNICEF/Saiyna Bashir

Fjarri fyrirsögnunum. Flóð í Pakistan.

Um hvað snýst málið?  

Skilti þar sem stendur Heimsvandamál : Fjarri fyrirsögnumPakistan glímir enn við hljóðlátar hamfarir eftir fordæmalaus flóð í kjölfar monsúnrigninganna miklu 2022.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna líkti þeim við „monsúngrigningar á sterum.” Vatn flæddi yfir þriðjung landsins. 1700 létust og 33 milljónir manna urðu fyrir barðinu á flóðunum. Miklar skemmdir urðu og einkum varð fólk í dreifbýli fyrir búsifjum.

 Baksvið flóðanna

 Rætur vandans liggja dýpra en vanalega þegar náttúruhamfarir eru annars vegar. Sérfræðingar benda á  að  monsúnrigningar og öfgakennt veðurfar hafi tvíeflst vegna loftslagsbreytinga.    

Flóð verða að jafnaði á áratugar fresti í Pakistan. Flóðin 2022 vöktu hins vegar heimsathygli enda var milljónum heimila, vega, heilsugæslustöðva, brúa og skóla skolað burt eða fóru á kaf. Loftslagsbreytingar margfölduðu monsúnrigningar með þeim afleiðingum að engin dæmi eru um slíkar hamfarir.

33 milljónir manna urðu fyrir skakkaföllum af völdum flóðanna.
33 milljónir manna urðu fyrir skakkaföllum af völdum flóðanna. Mynd: UNOPS

Afleiðingar á fólk og umhverfi  

 Flóðin hafa valdið miklum skakkaföllum. Fjölskyldur glíma við ástvinamissi, flótta frá heimilum sínum og röskun á grundvallarþjónustu. Hoor Jahan, er í hópi þeirra sem hafa hafist við í tjöldum mánuðum saman eftir að heimili hennar fór á kaf. Hún lýsti ástandinu þannig í samtali við einn vefmiðla Sameinuðu þjóðanna að „við lifum vart af.”

207 milljónir manna búa í Pakistan. Fimmti hver íbúi er vannærður og 37% glíma við fæðuóöryggi.

Ekki bætir úr skák að uppskera hefur eyðilagst vegna flóðanna og 1.1 milljón búfjár dáið. Þetta eykur vitaskuld á fæðuóöryggi og efnahagsvanda landsins og hamlar enduruppbyggingu.

 Milljónir barna hafa mátt þola röskun skólagöngu og glíma 44% barna enn við afleiðingar flóðanna 2022.

Milljónir barna hafa misst úr skólagöngu
Milljónir barna hafa misst úr skólagöngu. Mynd: UNOPS

  Hvernig hafa Sameinuðu þjóðirnar brugðist við?

Sameinuðu þjóðirnar hafa skipulagt heildstæð, sameiginleg viðbrögð. Fjölmargar stofnanir hafa tekist á við afleiðingar flóðanna.

 Samræmingarskrifstofa mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna (OCHA) hefur tekið saman viðbragðaáætlun og farið fram á fjárveitingar að upphæð 816 milljóna dala til að aðstoða 9.5 milljónir bágstaddra. Því miður tókst aðeins að afla 69% upphæðarinnar.    

 UNDP, Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur komið einstökum samfélögum til hjálpar og unnið samkvæmt áætlun um að endurreisa innviði og efla þolgæði.

   Barnahjálpin (UNICEF) og Matvælaáætlunin (WFP) hafa lykilhlutverki að gegna. UNICEF hefur einbeitt sér að því að tryggja aðgang barna að menntun og heilsugæslu. WFP hefur barist gegn auknu fæðuóöryggi með því að koma matvælaaðstoð til bágstaddra.

Loftslagsbreytingar hafa magnað monsúnrigningar.
Loftslagsbreytingar hafa magnað monsúnrigningar. Mynd: UNOPS

 Heimsmarkmiðin

 Flóðin í Pakistan eru áminning um hversu brýnt er að takast á við loftslagsvána og hve hart hún kemur niður á þjóðum sem standa höllum fæti.

 António Guterres aðalframkvæmdastjóri hefur ítrekað minnt á þörfina á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. „Kolefnislosun er að hita plánetuna okkar, drepur fólk, eyðileggur samfélög og leggur hagkerfi í rúst,” sagði Guterres. 

Áætlanir UNDP um endurreisn eftir flóðin og bætt viðnám rúmast innan þrettánda heimsmarkmiðsins um loftslagsaðgerðir, en auk þess kemur annað heimsmarkmiðið um ekkert hungur við sögu í starfi WFP.

Hús og innviðir lentu undir vatn eða skoluðust burt.
Hús og innviðir lentu undir vatn eða skoluðust burt. Mynd: UNOPS

 Hvernig getur almenningur hjálpað?

 Með því að minna á vandann á samfélagsmiðlum og taka þátt í umræðum um loftslagsmál. Einstaklingar geta látið til sín taka í sjálfboðaliðastarfi í þágu Sameinuðu þjóðanna (UN Volunteers).

Einnig er hægt að láta fé af hendi rakna til málsmetandi hjálparsamtaka á borð við  UNICEF og WFP. 

 Nánar hér, hér, hér og hér.