Stríðið á Gasa: mannskæðustu átök blaðamannastéttarinnar

0
24
Stór hluti Gasasvæðisins hefur verið lagður í rúst í flugskeytaárásum. Mynd: WHO
Stór hluti Gasasvæðisins hefur verið lagður í rúst í flugskeytaárásum. Mynd: WHO

Gasasvæðið. Blaðamenn. Mannréttindasérfræðingar. Hernaðaraðgerðir Ísraels á Gasasvæðinu í kjölfar hryðverkaárásar Hamas 7.október, eru mannskæðustu og hættulegustu átök sem um getur fyrir blaðamannastéttina, að sögn mannréttindasérfræðinga Sameinuðu þjóðanna.

„Við höfum þungar áhyggjur af fjölda blaðamanna og fjölmiðlastarfsmanna sem hafa verið drepnir, særðir, ráðist á og handteknir á herteknum palestínskum svæðum sérstaklega á Gasasvæðinu, undanfarna mánuði í trássi við alþjóðalög,“ segja mannréttindasérfræðingarnir.

Irene Khan sérstakur erindreki um tjáningarfrels
Irene Khan sérstakur erindreki um tjáningarfrelsi. Mynd: UN Photo/Manuel Elías

Að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa 122 blaðamenn og fjölmiðlastarfsmenn verið drepnir á Gasasvæðinu og fjölmargir særst. Að auki hafa þrír blaðamenn látist í sprengjuárásum Ísraels nærri landamærum Líbanon.

Fjórir ísraelskir blaðamenn voru drepnir af Hamas í árásunum 7.október.

Tugir palestínskra blaðamanna hafa verið handteknir af Ísraelsmönnum jafnt á Gasa sem vesturbakka Jórdanar. Þar hafa blaðamenn sætt harðræði, hótunum og árásum í auknum mæli frá 7.október.

Wael Al-Dahdou Al-Jazeera.
Wael Al-Dahdou Al-Jazeera. Mynd: Wikimedia/CC BY 3.0

Harmleikur fréttamanns Al-Jazeera

„Blaðamenn hafa sjaldan goldið jafn dýru verði að stunda vinnu sína og núna á Gasa,“ segja sérfræðingarnir. Þeir bentu sérstaklega á mál Wael al-Dahdouh fréttamanns Al-Jazeera. Hann missti konu sína, tvö börn og barnabarn í sprengjuárás Ísraela 25.október. Þá lifði hann af dróna-árás, sem varð myndatökumanni hans að bana síðla í desember. Enn missti hann son, einnig Al-Jazeera fréttamann, sem Ísraelar drápu ásamt öðrum starfsbróður, í drónaárás á bíl 7.janúar.

„Okkur hafa borist til eyrna ógnvænlegar fréttir af því, að þótt blaðamenn séu skýrt auðkenndir með „press“ á jökkum og hjálmum eða á farartækjum, hafi verið ráðist á þá . Slíkt virðist benda til að dráp, meiðingar og handtökur séu hluti af aðferðafræði Ísraels til að hindra fjölmiðla og þagga niður í gagnrýnum fréttaflutningi,“ segja sérfræðingarnir.

Francesca Albanese, mannréttindasérfræðingur.
Francesca Albanese, mannréttindasérfræðingur. Mynd: UN Photo/Loey Felipe

Ísraelar hvattir til að greiða fyrir fréttaflutningi

Þeir lýstu áhyggjum sínum af því að Ísrael meini fjölmiðlum um aðgang að Gasasvæðinu nema í fylgd með ísraelska hernum. „Árásirnar á fjölmiðla á Gasa og takmarkanir á ferðum utanaðkomandi blaðamanna til Gasa, ásamt rofnu netsambandi, eru brot á rétti fólks á Gasa og annars staðar í heiminum, til að fá upplýsingar,“ segja sérfræðingarnir.

„Við hvetjum ísraelsk yfirvöld til að leyfa blaðamönnum að fara óhindrað til Gasa og tryggja öryggi allra blaðamanna á herteknu svæðunum í Palestínu.“

Mannréttindasérfræðingarnir eru : Irene Khan, sérstakur erindreki um vernd og eflingu skoðana- og tjáningarfrelsis, Francesca Albanese sérstakur erindreki um mannréttindi á herteknu palestínsku svæðunum frá 1967, Mary Lawlor sérstakur erindreki um málefni verjenda mannréttinda,  Morris Tidball-Binz sérstakur fulltrúi um aftökur án dóms og laga og  Ben Saul sérstakur fulltrúi um mannréttindi og baráttu gegn hryðjuverkum.

Mannréttindasérfræðingarnir starfa innan þess sem kallað er sérstök málsmeðferð (Special Procedures) á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þeir eru óháðir og ólaunaðir og kosnir af ráðinu.