Skorað á leiðtoga heims að láta ekki fjármá

0
616

  Bono, Tutu, erkisbiskup og Martin Luther King, þriðji, ganga til liðs við milljónir manna sem krefjast þess að ráðamenn heims standi við loforð sem gefin voru á Þúsaldarleiðtogafundinum árið 2000.  
Búist er við að meir en 67 milljónir manna taki þátt í aðgerðum sem hefjast í dag undir vígorðinu “Rísum upp og grípum til aðgerða”. Ýmiss konar viðburðir verða haldnir um allan heim þar sem leiðtogar ríkja veraldar verða hvattir til að nota ekki fjármálakreppuna sem afsökun fyrir því að svíkja loforðin sem gefin voru árið 2000 um að ná Þúsaldarmarkmiðunum. Alls staðar mun fólk rísa á fætur til að krefjast með táknrænum hætti að sárafátækt í heiminum verði upprætt.
“Frá föstudegi til sunnudags, jafnt í ríkum löndum sem fátækum; á tónleikum og íþróttaviðburðum; í háskólum og við guðþjónustur, munu milljónir manna sýna í verki að þeir muni ekki sitja þegjandi á meðan jarðarbúar búi við örbirgð og loforð séu svikin um að uppræta hana,” segir Salil Shetty, forstjóri Þúsaldarherferðar Sameinuðu þjóðanna (UN Millennium Campaign).

Getum orðið fyrsta kynslóð til að uppræta fátækt

 “Þessi fjöldahreyfing mun sýna leiðtogum veraldar að almennir borgarar telja ótækt að nota fjármálakreppuna sem skálkaskjól til að ganga á bak orða sinna og þeir verði að leggja fram áþreifanlegar áætlanir um aðgerðir til að uppræta fátækt og ná Þúsaldarmarkmiðunum fyrir 2015

“Ef við stöndum saman á þessum sögulega degi getum við orðið fyrsta kynslóð í sögu mannkynsins til að uppræta mesta óréttlæti og mestu mannréttindabrot sögunnar: örbirgðina,” segir Desmond Tutu, erkibiskup og oddviti Öldunganna (The Elders.) 

Jórdanskur friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna á Haítíí matar fátækt barn

Baráttuhreyfingunni til stuðnings Þúsaldarmarkmiðunum hefur vaxið mjög fiskur um hrygg. Á síðasta ári tóku 43 milljónir manna þátt í átakinu Rísum upp gegn fátækt (Stand up against poverty).  Búist er við að í ár rísi 67 milljónir manna, eða 1 prósent jarðarbúa, upp gegn fátækt. 
“Fyrir fjórum áratugum, sýndi faðir minn, Martin Luther King Jr., og sannaði að friðsamlegar fjöldaaðgerðir geta breytt gangi sögunnar, jafnvel þótt viðvarandi ásand virðist rótgróið,” segir mannréttindafrömuðurinn Martin Luther King III.  “Um þessa helgi hefur fólk um allan heim, tækifæri til að rísa upp og grípa til aðgerða sem skipta alveg jafnmiklu máli: að krefjast þess að leiðtogar heimsins uppræti hið illa óréttlæti sem felst í sárafátækt.”  
"Ef þið viljið sýna samstöðu með hinum fátækustu og þeim sem standa höllustum fæti, þá hafið þið nú tækifæri til að rísa upp,” segir söngvari U2, baráttumaðurinn Bono. “Þið verðið í góðum félagsskap 60 milljóna manna sem telja að við getum ekki svikið loforð okkar þótt tímarnir séu erfiðir.”

Kröfurnar um upprætingu fátæktar

Skipulagðar hafa verið samkomur um allan heim þar sem fólk mun rísa á fætur á táknrænan hátt.

Íbúar fátækra ríkja munu krefjast eftirfarandi af ríkisstjórnum sínum:
 
1. Að Þúsaldarmarkmiðin um þróun verði sett í algjöran forgang á fjárlögum. 

2. Að skýrar áætlanir verði lagðar fram á öllum stjórnsýslustigum með tilliti til staðbundinna aðstæðna, um að ná Þúsaldarmarkmiðunum.

3. Að berjast af krafti gegn spillingu og koma á fót ferli til þess að uppræta refsileysi. 

Íbúar auðugra landa munu krefjast eftirfarandi af ríkisstjórnum sínum:

1. Að sett verði markmið um hvenær staðið verði við fyrirheit um aukningu þróunaraðstoðar. 

2. Að gefin verði fyrirheit um skuldauppgjöf umfram núverandi skuldbindingar um aðstoð og tryggja að allra fátækustu ríkin njóti þessa nú þegar. 

3. Að semja áþreifanlegar áætlanir um að ljúka Doha viðskiptaviðræðunum með það að markmiði að hjálpa fátækustu ríkjunum og fátækasta fólkinu við að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun. Það verði gert með því að afnema niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur sem skekkja samkeppnisfærni; draga úr niðurgreiðslum á vörum sem keppa við mikilvægar útflutningsvörur fátækra ríkja og tryggja raunverulegan markaðsaðgang fyrir fátæk ríki. 

Þessar kröfur eru settar fram þegar eftirfarandi blasir við í heiminum:

• 1.4 milljarður manna lifir á minna en 1.25 Bandaríkjadal á dag.

• Ein kona deyr á hverri mínútu á meðgöngu og af barnsförum.

• Um 40 milljónir manna eru sýktar af HIV/Alnæmi.

• 1.2 milljónum milljóna Bandaríkjadala er varið til vopnakaupa, en hins vegar er ekki hægt að finna þá 18 milljarða Bandaríkjadala sem þarf til að fjármagna núverandi fyrirheit auðugra ríkja um þróunaraðstoð.

• Fyrir hvern einn Bandaríkjadal sem þróunarríki fær í þróunaraðstoð, fer fjórðungur eða 25 sent í að standa undir afborgunum af erlendum lánum. 

Samkomur eru haldnar um helgina í Afríku, Asíu, Suður- og Norður Ameríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum og Eyjaálfu. Sjá hér lista yfir samkomur og atburði: http://www.standagainstpoverty.org/en/node/878
Heildarfjöldi þátttakenda verður tilkynntur 22. október á blaðamannafundi á netinu klukkan 1.30 á íslenskum tíma. Hægt er að skrá þátttöku hðér: www.standagainstpoverty.org.

Sjá hér: http://www.youtube.com/watch?v=4PZ0M7tcff8 ávarp friðarverðlaunahafa Nóbels, Desmonds Tutu, erkibiskups. 

Nánari upplýsingar:
UNRIC
Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna:
00 32 497458088
GCAP                                                                UN Millennium Campaign
Ciara O’Sullivan                                              Kara Alaimo
00 1 34 679 594 809                                           00 1 212-906-6399
[email protected]                          [email protected]