Nýjar ráðleggingar til að ná Þúsaldarmarkmiðunum um alnæmi.

0
476
alt

altFjárfestingar í viðbrögðum við Alnæmi eru farnar að skila árangri nú þrjátíu arum eftir að faraldurinn reið yfir, að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kynnti í dag. 

Þar kemur fram að fjöldi nýrra smita fer lækkandi, aðgangur að meðferð er að aukast og tekist hefur að minnka HIV-smit frá mæðrum til barna í heiminum.
Frá 2001 til 2009, hefur tíðni HIV smits minnkað um að minnsta kosti 25% í 33 ríkjum, þar á meðal 22 í Afríku sunnan Sahara. Við árslok 2010 voru 6 millljónir manna í lyfjameðferð í lág- og meðaltekjulöndum. Og í fyrsta skipti árið 2009 náðu varnir til að hindra HIV frá móður til barns meir en 50%. 

En þrátt fyrir þennan árangur upp á síðkastið, er lögð áhersla á það í skýrslunni að árangurinn er brothættur. Fyrir hvern einn sem hefur lyfjameðferð, sýkjast tveir af HIV. Á hverjum degi sýkjast 7 þúsund manns í heiminum, þar af þúsund born. Veikir innviðir ríkja, fjárhagsskortur og mismunun gegn ýmsum þeirra sem standa höllustum fæti eru á meðal hindrana gegn aðgangi að HIV vörnum, meðferð, umönnun og stuðningsjónustu.

Skýrsla framkvæmdastjórans byggir á tölfræði frá 182 löndum. Þar eru settar fram fimm lykil-ráðleggingar sem veraldarleiðtogar munu fara yfir á sérstökum fundi háttsettra leiðtoga á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um Alnæmi 8. – 10. júní 2011.

 “Veraldarleiðtogar hafa einstakt tækifæri á þessu mikilvæga augnabliki til að meta árangur og skilgreina hvar skóinn kreppir að í viðbrögðum við Alnæmi á heimsvísu,” sagði framkvæmdastjórinn á blaðamannafundi í Nairobi, höfuðborg Kenýa. “Við verðum að taka djarfar ákvarðanir til að umbylta alnæmisviðbrögðum og skjóta stoðum undir HIV-lausa kynslóð. “

Ráðleggingarnar í skýrslu framkvæmdastjórans eru fimm talsins:

 Fylkja liði ungs fólks gegn HIV smiti.
 Blása nýju lífi í átak í þágu almenns aðgangs að HIV vörnum, meðferð, umönnun og stuðningi fyrir 2015.
 Starfa með einstökum ríkjum að því að gera HIV áætlanir ódýrari, skilvirkari og sjálfbærari.
 Efla heilsu, mannréttindi og reisn kvenna og stúlkna.
 Tryggja gagnkvæma ábyrgð til að breyta orðum í athafnir í viðbrögðum við Alnæmi.