Kostuðu gallabuxurnar þínar mannslíf?

0
478

Textíl

7.janúar 2014. Margir færa sér verðhrun á janúarútsölum í nyt til að endurnýja fataskápinn.

Sífellt fleiri neytendur velta því núorðið fyrir sér hvernig og við hvaða aðstæður gallabuxur sem áður kostuðu bara 10 þúsund en 5 þúsund nú, voru framleiddar. Óásættanlegar aðstæður líðast of oft í fataiðnaðinum og hótanir, ofbeldi og jafnvel þrælahald viðgengst. Um það bil 168 milljónir barna eru á vinnumarkaði í stað þess að ganga í skóla og af þeim eru 85 milljónir taldar vinna við hættulegar aðstæður. Mörg þessara barna vinna í fataiðnaðinum.

En það eru líka góðar fréttir, til dæmis hafa 900 starfsmenn Ando International í Víetnam fengið að kjósa sér fulltrúa sem eiga reglubundna fundi með yfirmönnum. Þetta ferli sem kallað er PICC (Performance Improvement Consultative Committee), á rætur að rekja til samtakanna Better Work Vietnam, en að þeim standa á vegum Sameinuðu þjóðanna Alþjóðavinnumálastofnunin, ILO  og IFC,  International Finance Corporation.

Raunhæfar breytingar hafa orðið til batnaðar fyrir starfsfólkið þar sem þessu ferli hefur verið komið á, allt frá hærri launum, til bætts hreinlætis og öryggis.
.
En mikið starf er óunnið. Slysið í Bangladesh þegar Rana Plaza verksmiðjan hrundi í fyrravor og kostaði 1100 lífið, er eins og fataiðnaður heimsins í hnotskurn. Starfsfólk geldur oft með lífi sínu við framleiðslu á gallabuxunum sem við finnum í verslunum, jafnvel á Íslandi. Í kjölfar átaks sem kennt er við hrein föt Clean Clothes Campaign  sem hófst 2010, var sums staðar hætt að steinblása gallabuxur en þetta olli öndunarfærasjúkdómum á meðal starfsmanna. En samkvæmt nýlegri rannsókn  er þessi aðferð enn notuð í stórum stíl þótt eitt merki hafa bannað að nota þessa tækni.

Í síðustu viku létust svo þrír þegar lögregla í Kambódíu hóf skothríð á starfsmenn í vefnaðariðnaðinum sem kröfðust hærri launa og betri aðbúnaðar.

Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur krafist tafarlausra aðgerða til að efla verkalýðsfélög og koma á eftirliti með hverju stigi framleiðslunnar.