Friðargæslusveit í Darfur hættir störfum.

0
915
UNAMID
Pakistanskir friðargæsluliðar UNAMID í norður-Darfur. Mynd: UNAMID

Sameiginleg friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins, UNAMID, í Darfur-héraði í Súdan hefur lokið störfum. Ríkisstjórn Súdans verður hér eftir ábyrg fyrir öryggi íbúanna.

 Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti fyrir jól að UNAMID myndi hætta störfum í Darfur um áramót. UNAMID staðfesti í tilkynningu þessa ákvörðun í síðustu viku.

Mesta neyðarástand í heimi

Átök hófust á milli vígasveita, upreisnarhópa og súdönsku stjórnarinnar í Darfur í vesturhluta Súdans árið 2003. Að mati Sameinuðu þjóðanna týndu 300 þúsund manns lífi í átökunum. 2.7 milljónir manna urðu að flýja heimili sín.

Kofi Annan þáverandi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir 2006 að þarna ríkti mesta neðarástand heims. Undanfarna mánuði hafa verið teikn á lofti um batnandi tíð.

Bashir UNAMID
Nepalir í UNAMID að störfum í Masteri í Darfur. . Mynd: Alþjóða glæpadómstóllinn

Omar al-Bashir forseti var hrakinn frá völdum í apríl 2019 eftir langvarandi mótmæli almennings. Í byrjun árs 2020 ákvað herstjórnin að framselja al-Bashir til Alþjóðlega glæpadómstólsins. Þar sætir hann ákæru fyrir glæpi gegn mannkyninu í Darfur á árunum 2003 til 2008.

Í október síðastliðnum náðist svo tímamóta-samkomulag á milli Súdanstjórnar og vopnaðra sveita í Darfur. Talið er að bráðabirgðastjórn sé í stakk búin að tryggja öryggi íbúa þótt ekki ríki fullkomið öryggi í héraðinu.

Umboð UNAMID að vernda almenning

UNAMID DARFUR
Nepalir í UNAMID að störfum í Masteri í Darfur. UN Photo/Surendra Bahadur Ter

UNAMID er sameiginleg friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna og Aríkusambandsins í Darfur. Ríkisstjórn Súdans samþykkti stofnun hennar 2007 eftir mikinn þrýsting af hálfu Ban Ki-moon fyrrverandi aðalframkvæmdastjóra SÞ og alþjóða samfélagsins.

Hlutverk UNAMID var að vernda óbreytta borgara, greiða fyrir afhendingu neyðaraðstoðar og tryggja öryggi hjálparstarfsmanna.

Síðustu eftirlitsferðir UNAMID voru farnar á gamlaársdag. Næsta hálfa ár mun sveitin smám saman hætta störfum, herlið og búnaður flutter heim og alþjóðlegt og innlent starfsfólk hætta störfum.

Þessu ferli á að vera lokið 30.júní 2021.

Dregin saman seglin

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þakkaði starfsliði UNAMID á Twitter fyrir störf sín. Hann lýsti yfir að Sameinuðu þjóðirnar myndu halda áfram að styðja við bakið á ríkisstjórn Súdans og súdönsku þjóðinni við að byggja öruggari framtíð.

Teymi Sameinuðu þjóðanna í Súdan (UN Country Team) og sérstök aðstoðarsveit (UNITAMS) munu leggja bráðabirgðastjórn lið. Verkefnin eru einkum umbætur á stjórnarháttum og að takast á við efnahagskreppu þar til kosningar verða haldnar.

Á sama tíma og tilkynnt var um lokun í Darfur lauk einnig starfi annarar sveitar samtakanna. Fiðaruppbyggingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Gíneu-Bissau lauk störfum um áramót.