Friðarverðlaunahöfum Nóbels óskað til hamingju

0
378
Friðarverðlaun Nóbels
ProtoplasmaKid- Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Friðarverðlaun Nóbels. Tilkynnt var í dag í Osló að norska Nóbelsnefndin hefði ákveðið að sæma Ales Bialiatski, rússnesku samtökin Memorial og miðstöð borgarlegra réttinda í Úkraínu, friðarverðlaunum Nóbels 2022.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur óskað friðarverðlaunahöfum Nóbels til hamingju og tók í yfirlýsingu undir þau orð Nóbelsnefndarinnar að borgaralegt samfélag hefði ríku hlutverki að gegna í friðarviðleitni.

 „Samtök borgaralegs samfélags eru súrefni lýðræðisins og aflvakar friðar, félagslegra framfara og hagvaxtar,“ sagði António Guterrres í yfirlýsingu. „Þau stuðla að því að yfirvöld séu dregin til ábyrgðar og tala máli þeirra sem höllustum standa fæti í valdasetrum.“

 Þrengt að borgaralegu rými

Setur Nóbelsstofnunarinnar í Osló.
Setur Nóbelsstofnunarinnar í Osló. Mynd: UN News/Anton U

Aðalframkvæmdastjórinn harmaði að sífellt meira væri gengið á borgarlegt rými í heiminum.

„Mannréttindaforkólfar, baráttufólk fyrir umhverfisvernd, blaðamenn og aðrir sæta handtökum af geðþótta, ofbeldi og óhróðurs-herferðum, eru  dæmdir til langrar fangavistar eða þungra sekta.

 Um leið og við óskum verðlaunahöfunum í ár til hamingju, skulum við heita því að koma til varnar hugrökkum verndurum alheims-gilda friðar, vonar og mannlegrar reisnar,“ sagði Guterres aðalframkvæmdastjóri.

Þess má geta að Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra hafa tólf sinnum hlotið friðarverðlaun Nóbels.