Gerum geðheilbrigði og vellíðan allra að forgangsverkefni

0
411
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn.
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn. Mynd: Nik Shuliahin/Unsplash

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 2022.  COVID-19 heimsfaraldurinn hefur hrundið af stað sannkallaðri heimskreppu í geðheilbrigði. Faraldurinn hefur grafið undan geðheilbrigði milljóna manna um allan heim.

Talið er að bæði kvíði og þunglyndi hafi aukist um meir en fjórðung – 25% – á fyrsta ári heimsfaraldursins. Á sama tíma hefur geðheilbrigðisþjónusta raskast og bilið á milli þarfa og þeirrar þjónustu á geðheilbrigðissviði sem stendur til boða, hefur breikkað.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur í tilefni af geðheilbrigðisdeginum 10.október tilkynnt herferð um þemað Gerum geðheilbrigði og vellíðan allra að forgangsverkefni á heimsvísu.

 Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 2022
Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 2022 Mynd: Emma Simpson/Unsplash

Hér er á ferðinni tækifæri fyrir fólk sem glímir við geðsjúkdóma, baráttufólk, ríkisstjórnir, atvinnurekendur, starfsfólk og aðra hlutaðeigandi til að fylkja liði og viðurkenna framfarir á þessu sviði.

Geðheilbrigði hefur átt undir högg að sækja á ýmsum sviðum og þurfti ekki heimsfaraldurinn til. Árið 2019 var talið að áttundi hver jarðarbúi byggi við geðröskun.

Á sama tíma hefur hvort heldur sem er þjónusta, geta eða fjármögnun á geðheilbrigðissviði verið af skornum skammti og miklu minni en þarfirnar, sérstaklega í lág- og meðaltekjuríkjum.

Milljarður manna með geðröskun

 Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn
12 miljarðar vinnudaga tapast vegna kvíða og þunglyndis. Mynd: Priscilla du Preez/Unsplash

„Nærri einn milljarður manna glímir við geðröskun,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum. „En samt er geðheilbrigði einn vanræktasti hluti heilsugæslunnar. Í sumum ríkjum eru aðeins tveir geðheilbrigðisstarfsmenn á hverja eitt hundrað þúsund íbúa. Félagslegar og efnahagslegar afleiðingar þessa, eru geigvænlegar.  Kvíði og þunglyndi kosta hagkerfi heimsins eina trilljón (milljón milljónir) Bandaríkjadala á ári, að talið er.“

Sameinuðu og þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hvetja til þess að efla getu heilbrigðiskerfisins til að bjóða upp á gæða-þjónustu, ekki síst ungu fólki. Þar á meðal er hvatt til þess að innifela geðheilbrigði í heilbrigðis- og félagslegri þjónustu á breiðari grundvelli.

„Okkur ber einnig að ráðast til atlögu við smánun og mismunun og brjóta niður þá múra sem hindra fólk í að leita sér umönnunar og stuðnings,“ segir Guterress.

Geðheilbrigði á vinnustöðum

WHO og ILO (Alþjóða vinnumálastofnunin) hafa hvatt til raunhæfra aðgerða til að takast á við geðheilbrigðisvanda á meðal vinnandi fólks.

Í skýrslu WHO um geðheilbrigði í heiminum ( World Mental Health Report) sem kom út í júní, segir að  15% fólks á vinnualdri hafi upplifað einhvers konar geðröskun. Talið er að 12 milljarðar vinnudaga glatist á ári sökum þunglyndis og kívða.

„Það er kominn tími til að líta á hve slæm áhrif atvinna getur haft á geðheilbrigði okkar,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO.

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 2022 á Íslandi

Dagskrá verður í tilefni Alþjóða geðheilbrigðisdagsins 10.október í Bíó Paradís, Hverfisgötu 54 í Reykjavík. Hefst hún kl.14 og er aðgangur ókeypis. Á meðal ræðumanna verða Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Páll Matthíasson geðlæknir.

Sjá nánar hér og hér.