Guterres grípur til neyðarúrræðis vegna Gasa

0
9
© UNRWA/Ashraf Amra Fólk leitar að persónulegum eigum í rústum í Nuseirat flóttamannabúðunum á Gasa.
© UNRWA/Ashraf Amra Fólk leitar að persónulegum eigum í rústum í Nuseirat flóttamannabúðunum á Gasa.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Gasasvæðið. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur í fyrsta skipti frá því hann tók við embætti 2017 gripið til 99.greinar stofnskrár Sameinuðu þjóðanna til að knýja Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til athafna vegna ástandsins á Gasasvæðinu.

Í 99.greininni segir: „Aðalforstjórinn getur vakið athygli öryggisráðsins á hverju því máli, sem að hans dómi kann að stofna í hættu varðveizlu heimsfriðar og öryggis.“

Þetta er aðeins í þriðja skipti sem aðalframkvæmdastjóri vísar beinlínis til 99.greinarinnar með það fyrir augum að knýja Öryggisráðið til að taka afstöðu. Síðast gerði Perez de Cuellar það fyrir 34 árum, eða 1989, vegna átaka í Líbanon. Nokkrum sinnum hefur orðalag greinarinnar verið notað, þótt ekki væri beinlínis vísað til henanr.

Guterres sendi forseta Öryggisráðsins bréf þessa efnis í gær 6.desember.

Í yfirlýsingu Stéphane Dujarric talsmanns Guterres segir að þetta sér gert vegna þess að „manntjón á Gasa og í Israel sé orðið gríðarlegt á skömmum tíma.“

Hann sagði þetta „dramatískt stjórnarskrárlegt úrræði“ til þess að auka þrýsting á Öryggisráðið og alþjóðasamfélagið að krefjast þess að stríðandi fylkingar slíðri sverðin.

Í bréfi Guterres til forseta ráðsins minnist hann á þá 1200 sem drepnir voru í árás Hamas 7.október, þar af 33 börn og 130, sem enn eru í gíslingu. „Þeim ber að sleppa tafar- og skilyrðislaust. Fregnir af kynferðislegu ofbeldi í þessum árásum eru andstyggilegar.“

Hrun mannúðarkerfisins blasir við

15 þúsundir hafa verið drepnar í árásum Ísraels á Gasa, 40% þeirra á barnsaldri.

Um 80% íbúa Gasa hafa hrakist frá heimilum sínum. 1.1 milljón hefur leitað griða hjá Palestínu-flóttamannahjálpinnni(UNRWA).

„Sjúkrahús eru orðin hinir nýju vígvellir,“ bætti hann við „og þegar íbúar hafa hvorki húsaskjól né lífsnauðsynjar, býst ég við að almannaregla eigi eftir að hrynja algjörlega fyrr en síðar.“

Öryggisráðið hefur einu sinni, 15. nóvember ályktað um Gasa en síðan þá hefur ástandið snarversnað.

„Við getum hreinlega ekki mætt þörfum þeirra sem eru á Gasasvæðinu,“ skrifaði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna , „og það er alvarleg hætta á hruni mannúðarkerfisins.“