Grundvöllur siðaðs samfélags -75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar – fjórði hluti

0
21
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna meitluð í stein á Anne Frank mannréttindasafninu í Boise í Idaho í Bandaríkjunum.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna meitluð í stein á Anne Frank mannréttindasafninu í Boise í Idaho í Bandaríkjunum. Mynd: Kencf0618 - CC BY-SA 4.0

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 75 ára. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segir að Mannréttindayfirlýsingin sé „grundvöllur siðaðs samfélags“ og eigi enn erindi við okkur þremur aldarfjórðungum eftir samþykkt hennar. Athygli vakti þegar Guðni lýsti yfir þegar hann bauð sig fram til embættisins að hann hafi „haldið upp á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna fremur en trú á einn guð.“

Árni Snævarr upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum ræddi við forseta Íslands í tilefni af 75 ára afmæli yfirlýsingarinnar.

Árni Snævarr og Guðni Th. Jóhannesson. Mynd: forsetaembættið.

Hluti af lífsskoðun

-Má segja að Mannréttindayfirlýsingin sé hluti af þinni lífsskoðun?

„Já, því ekki?

„Hver maður er bor­inn frjáls, jafn öðrum að virðingu og rétt­ind­um. Menn eru gædd­ir vits­mun­um og sam­visku og ber að breyta bróður­lega hverjum við ann­an.“

Einhvern tíma lagði ég þetta á minnið og finnst þessi grundvöllur samfélagi eins góður og hver annar. Nú er kannski íslenska þýðingin orðin önnur, en ég hygg að þetta sé sá grunnur, sem fólki sé hollt að standa á.“

Sami grunnur og í trúarbrögðum

-Á Mannréttindayfirlýsingin ennþá erindi við okkur?

„Já, að sjálfsögðu. Hún er grunnur siðaðs samfélags; sami grunnur og í trúarbrögðum ef út í það er farið. „Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra,“ segir í hinni helgu bók, og sama boðskap má finna í fjölmörgum öðrum trúarbrögðum. Þannig að Mannréttindayfirlýsing sver sig í ætt við þennan náungakærleik og ég myndi segja að allt fólk sem vill koma vel fram við annað fólk og vill að komið sé vel fram við sig eigi að geta stutt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Hún er auðvitað viljayfirlýsing, hún er ekki meitluð í stein, hún er ekki lög hins alþjóðlega samfélags, sem viðurlög eru við, en hún er eins konar stjórnarskár alþjóðasamfélagsins.“

Stytta við Chaillot-höll í París.
Stytta við Chaillot-höll í París. Mynd. Árni Snævarr

Vestræn gildi?

-Þú vitnaðir í fyrstu greinina. Hún gæti verið úr mannréttindayfirlýsingu frönsku byltingarinnar eða gæti verið frá Bandaríkjunum, og svo framvegis. Eru þetta kannski of vestræn gildi sem þarna eru á ferðinni?

„Það skal ég ekki segja. Ég myndi vona og ætla að þau séu af því tagi að bæði valdhafar og almenningur um víða veröld geti fallist á hana. En auðvitað er það svo að þegar Mannréttindayfirlýsingin var samin, voru Vesturveldin í öndvegi í alþjóðasamfélaginu og Sovétríkin sálugu þar með, auðvitað. En ásinn norður-suður er einnig til í heimssamfélaginu. Á þessum tímapunkti, er auðvitað staðan sú að nýlenduveldin eru enn á þeim stað að ráða og það áratugi eftir það fyrir ríki víða um heim að losna undan því oki.

Dennis Francis forseti Allsherjarþingsins í ræðustól
Dennis Francis forseti Allsherjarþingsins í ræðustól í umræðum um samstarf um þróun Afríku. Mynd: UN Photo/Loey Felipe.

Hugsanlega orðið öðruvísi

Þannig að hver veit. Kannski hefði Mannréttindayfirlýsingin orðið einhvern veginn á annan veg ef hún hefði verið samin tuttugu eða þrjátíu árum síðar. En að því sögðu er grunnurinn þarna til staðar og er þess eðlis að við eigum öll að geta fallist á hann. Svo má kannski velta fyrir sér hverju megi bæta við núna og eins og þú ýjar að, hvort þessi grunnur hefði orðið öðru vísi á einhvern hátt.“

Þegar mannréttindayfirlýsingin var tekin saman voru aðildarríki Sameinuðu þjóðann 58 en eru í dag 193. Flækjustigið var hátt árið 1948, og jafnvel enn hærra í dag 75 árum síðar

Réttur til hreins umhverfis er til umræðu á vettvangi mannréttinda. Mynd: Chris Leboutillier/Unsplash

Því vaknar sú spurning hvort hægt væri að hugsa sér að mannréttindayfirlýsing yrði samþykkt í dag? Og ef svo, hvaða ný sjónarmið kæmu til sögunnar?

Ný sjónarmið

-Það er búið að samþykkja að vatn séu mannrétttindi, umhverfi og svo framvegis. Sérðu fyrir þér að það væri eittthvað á þeim grunni?

„Til dæmis, já. Ég get séð fyrir mér ef fulltrúar ríkja heims myndu vilja setjast niður núna og semja nýja Mannréttindayfirlýsingu, eða endurskoða hana í öllu sínu eðli, þá myndu bætast við ákvæði um rétt fólks til vatns, já. Rétt fólks til heilnæms umhverfis, bann við því að fólk geti hagnýtt sér  náttúruna á þann hátt að annað fólk bíði skaða af. Þetta gæti verið ein viðbótin. Bann við mengun og þar fram eftir götunum.

Ástfrelsi
Kynvitund var ekki í deiglunnni árið 1948. Mynd:Alexander Grey/ Unsplash

Aðrir þættir hugsanlega, sem lúta að kynhneigð. Ástfrelsi. Kannski ætti ástfrelsi heima í Mannréttindayfirlýsingunni. Réttindi fatlaðs fólks eru ekki áberandi í Mannréttindayfirlýsingunni. Eflaust yrði þeim gert hærra undir höfði nú til dags. Þannig að auðvitað má halda því fram að svona sáttmáli, eins og aðrir sáttmálar sem eru mannanna verk, geti staðist tímanna tönn en þurfi jafnvel endurskoðunar við eftir því sem samfélag okkar breytist og þróast og við gerum okkur betur grein fyrir því að mannréttindi eru algild og má aldrei skerða. Eftir því sem samfélagið breytist og þróast má vel vera að við viljum bæta hinu og þessu við, og leggja áherslu á einn stað, sem var ekki áberandi áður.“

Mynd: Engin Akyurt/Unsplash

Ástand mannréttinda

-Að síðustu er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mannréttinda í heiminum í dag?

„Já, eins og fólk sér og heyrir fréttir utan úr hinum stóra heimi þá er svo sannarlega ástæðu til að harfa áhyggjur, en um leið ekki ástæða til að óttast að allt sé að fara á allra versta veg og því síður að við höfum ekki gengið til góðs. Þeim fjölgar, sem betur fer, sífellt í heiminum, sem búa við grundvallarmannréttindi, sem áður voru ekki öllum gefin; réttur til menntunar, réttur til ferðafrelsis, réttur til að láta sína drauma rætast, réttur til að njóta lífsgæða sem ekki voru öllum gefin áður.

Teiknuð mynd af konum.
Jafnréttismál eru eitt af stærstu mannréttindamálum samtímans. Mynd: UN Women

Heimurinn hefur batnað að þessu leyti. Við lifum upp til hópa betur og lengur. Við njótum betri heilsu. Sífelldar framfarir á sviði hvers kyns vísinda, sem hjálpa fólki að njóta betra lífs. Þannig að þótt víða ríki hörmung og eymd, stríð og styrjöld, fátækt, hungursneyð hér – alls kyns vandi þar, þá er heildarmyndin þannig að mannkyninu farnast smám saman betur. Í það minnsta verðum við að halda í þá vona.

Vissulega vofir loftslagsvá yfir og vissulega verður að stilla til friðar þar sem saklaust fólk bíður bana eða getur ekki lifað eðlilegu lífi, en á heildina litið, getum við litið um öxl og sagt að Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna stuðlaði að því okkur sem lifum í þessum heimi  hefur ef á heildina er litið farnast betur, en fólk gat kannski séð fyrir sér fyrir 75 árum.“

Þetta er fjórði hluti greina um Mannréttindayfirlýsinguna í tilefni 75 ára afmælis hennar, sjá fyrri greinar hér,  hér og hér.

Sjá Mannréttindayfirlýsinguna hér. 

Sjá nánar hér  hér. 

75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar sjá hér.